136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

frumvarp um matvæli.

[10:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég skal svara spurningu hv. þingmanns strax. Nei, það er ekki hugmyndin að leggja þetta frumvarp í salt. Það hefur verið unnið að þessu máli mjög samviskusamlega í sumar, alveg frá því að ákveðið var sl. vor að ljúka ekki afgreiðslu þess þá. Sú vinna hefur miðast við að reyna að tryggja varnirnar fyrir íslenskan landbúnað. Það er einfaldlega þannig, eins og ég rakti á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, það eru allar forsendur til þess og allir möguleikar til þess og ef menn lesa t.d. álit Bændasamtakanna kemur það glögglega fram, m.a. með skírskotun til EES-samningsins, að við höfum þarna mjög miklar varnir, alveg eins og ég sagt frá upphafi.

Það er vel hægt að útbúa þetta frumvarp og lögin þannig að það sé hægt að hafa þær varnir eins góðar og þörf er á og við höfum alla hagsmuni af því að slík matvælalöggjöf sé til staðar. Hluti af því matvælaöryggi sem við sem íslensk þjóð erum að tala um snýr að því að við getum tryggt t.d. að eðlileg viðskipti milli þjóða geti átt sér stað. Það er það sem við höfum verið að reka okkur á núna upp á síðkastið þar sem matvælaöryggi okkar hefur helst verið ógnað af því að það er verið að reyna að koma í veg fyrir að slík viðskipti eigi sér stað.

Þetta frumvarp sem við höfum verið að fara höndum um og höfum verið að skoða, m.a. með hliðsjón af ábendingum Bændasamtakanna og margra annarra, hefur m.a. það hlutverk að tryggja að við getum verið með heilbrigð matvæli hér á landi og auðvitað verður ekki hvikað frá því með nokkrum einasta hætti. Það er einfaldlega rangt hjá hv. þingmanni að þessi löggjöf verði þannig úr garði gerð að hún sé á nokkurn hátt tilræði við matvælaöryggi þjóðarinnar, öðru nær, né heldur tilræði við hagsmuni bænda.

Ég vil svo vekja athygli á því, virðulegi forseti, að síðustu vikur eða mánuði hefur nánast alveg horfið innflutningur á erlendum kjötvörum og þess háttar sem heimildir eru til að flytja inn og hafa verið fluttar inn. Þær eru ekki fluttar inn vegna þess að aðstæður eru þannig að samkeppnisstaða íslensks landbúnaðar hefur sem betur fer batnað að þessu leyti.