136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

frumvarp um matvæli.

[10:46]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég þekki ekki til innkaupavenja hæstv. landbúnaðarráðherra eða hvar hann verslar inn í matinn en sjálfur þekki ég það mjög vel að í þeim verslunum sem ég kem er mikið af innfluttu kjöti og sala á því kjöti hefur í mörgu verið tregari nú en undanfarið því að margt af þessu er hágæða lúxusvarningur. En ástæður fyrir því að ekki hefur verið flutt mikið inn núna eru aðrar sem ég ætla ekki að fara út í nú og þingheimur veit fullvel um.

Ég lagði fram þrjár já/nei spurningar fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra og fékk svar við einni þeirra. Ég hef ekki fengið svar við því hvort í frumvarpinu eins og það verður lagt fram núna verði tryggt að ekki komi hrátt kjöt inn í landið. Ég tel svar við þessu vera algjört lykilatriði vegna þess að mjög margir af þeim atvinnurekendum sem eru í svínabúskap, kjúklingabúskap og fleiri búgreinum horfa í rauninni fram á eins og reyndar víða í atvinnulífinu mjög erfiða stöðu. Ef ekki fæst skýrt svar við þessu geta margir þessara aðila farið að hugsa um að pakka niður og skila inn kennitölunni því að staðan er ekki björt ef þeir eiga að fara að keppa við evrópskan (Forseti hringir.) landbúnað með þessum hætti.