136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

frumvarp um matvæli.

[10:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður veit vel að það er ekki þannig að í þessari matvælalöggjöf verði neitt fortakslaust bann við að flytja inn ófrosið kjöt. Það verða hins vegar settar varnir með öðrum hætti sem tryggja að (Gripið fram í.)mögulegur innflutningur á þessu kjöti verður háður því að við getum haft algjört eftirlit með því að ekki sé verið að fórna á nokkurn hátt hagsmunum landbúnaðarins eða þeim hagsmunum sem neytendur hafa í því að fá hér heilbrigt kjöt. (Gripið fram í.) Ég er búinn að vekja athygli á því og rakti það m.a. í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem var með opinn fund sem sjónvarpað var frá. Þá var þetta mál m.a. kallað af hv. þingmönnum aukaatriði. Ég er algjörlega ósammála því, þetta er stórmál og skiptir okkur máli. Það hefur verið unnið mjög samviskusamlega að því að breyta þessu frumvarpi á þann veg og styrkja allar varnir gagnvart landbúnaðinum.

Þetta er tilefnislaus hræðsluáróður hjá hv. þingmanni og undarlegt að hann skuli hafa uppi þennan órökstudda hræðsluáróður þegar það liggur fyrir að verið er (Gripið fram í.) að fara mjög rækilega yfir þessi mál og leggja fram hugmyndir, sem ég gerði grein fyrir í nefndinni, sem lúta að því að styrkja varnirnar fyrir íslenskan landbúnað og hagsmunum íslensks landbúnaðar (Forseti hringir.) verður ekki fórnað í þessu máli.