136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

vísitöluhækkun lána.

[10:49]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Í þeim hamförum sem nú ríða yfir þjóðfélagið bera margir kvíðboga fyrir þróun lána sinna sem koma til með að hækka mjög mikið á næstunni ef við náum ekki vísitöluþróuninni niður. Þetta er mjög erfitt mál í því ástandi sem nú er í ljósi þess að þegar krónan er eins veik og raun ber vitni þá kemur mikil hækkun matvæla mjög fljótt inn í vísitöluna. Á sama tíma vitum við að fasteignaverð lækkar mjög hratt en það kemur hins vegar ekki fram. Það er lítil sala á fasteignum og þær fasteignir sem seljast fyrst og fremst eru á langvinsælustu svæðunum og svo ódýrustu fasteignirnar. Vitað er að fasteignaverð er raunverulega að lækka mjög mikið, dýrar eignir með háum lánum seljast hreinlega ekki. Þetta verður til þess að vísitalan getur til skamms tíma hækkað mjög hratt þar sem aðföng hækka mjög mikið en fasteignaverð sem telur mikið inn í vísitöluna kemur ekki inn með lækkunina sem er raunverulega í kerfinu. Þetta verður til þess að lán hækka mjög hratt núna til skamms tíma. Vísitalan sem þar kemur ofan á kemur til með að sitja á lánunum þangað til þau eru uppgreidd. Þetta er mjög alvarlegt mál og mjög erfitt fyrir marga aðila að sjá lánin hækka með þessum hætti.

Ég spyr því hæstv. félagsmálaráðherra hvort henni finnist koma til greina að gera sérstaka undanþágu eða nálgast vísitöluútreikningana með öðrum hætti meðan þessi holskefla eða hamfarir ganga yfir. Útreikningar þessir eru svo slæmir til skamms tíma að það tekur engu tali og því er spurningin sú: Getum við leyft okkur að hafa eins konar hamfaraútreikninga þannig að þessi holskefla og hækkun til skamms tíma komi ekki ofan á lánastaflann sem síðan kemur til með að sitja á fjölskyldunum í landinu alveg þangað til að uppgreiðsla lána hefur átt sér stað?