136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

staða sjávarútvegsins.

[10:55]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég er með þrjár spurningar til hæstv. sjávarútvegsráðherra. Í fyrsta lagi hverjar eru heildarskuldir sjávarútvegsins í dag? Í öðru lagi hverjar eru ætlaðar tekjur sjávarútvegsins á þessu ári? Og í þriðja lagi hver er framlegð í íslenskum sjávarútvegi í dag?

Tilefni þessara spurninga er auðvitað það að atvinnulífið er á algjörum brauðfótum, maður hefur á tilfinningunni að það sé að stoppa bæði út af gjaldeyristilfærslum og að það er hætt að borga út laun í sumum fyrirtækjum og þetta er allt að hruni komið. Því spyr ég hæstv. sjávarútvegsráðherra þessara þriggja spurninga og vænti þess að fá svör.