136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

staða sjávarútvegsins.

[10:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er það náttúrlega alrangt hjá hv. þingmanni að framlegðin í sjávarútvegi um þessar mundir sé 10%. Hún er miklu meiri sem betur fer. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað eru skuldirnar við þessar aðstæður allt of miklar. En það sem ég var að reyna að vekja athygli á er að stóra verkefnið okkar núna er að koma á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum þannig að það hafi þau áhrif m.a. sem leiði til styrkingar á íslensku krónunni og þar með lækkandi skuldum fyrirtækjanna.

Ég vil líka vekja athygli á því sem ég nefndi í svari við spurningu áðan að við vitum að búið er að stíga fyrsta skrefið til lækkunar á vöxtum hér á landi með lækkandi stýrivöxtum Seðlabankans og auðvitað mun þetta allt saman hafa áhrif.

Sjávarútvegurinn siglir auðvitað mikinn ólgusjó við þessar aðstæður. Stóra verkefnið sem hann stendur frammi fyrir og stóra vandamálið er skortur á gjaldeyrisyfirfærslum sem eins og ég sagði áðan er unnið hörðum höndum við að reyna að breyta þannig að sá mikli gjaldeyrir sem verið er að skapa í sjávarútveginum, í stóriðjunni, í ferðaþjónustunni og mörgum öðrum atvinnugreinum komi til landsins og verði þess valdandi að krónan styrkist og menn geti hafið hér eðlileg gjaldeyrisviðskipti.