136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

álver á Bakka.

[11:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs því á þessum svo alvarlegu tímum fyrir land vort birtist í dagblöðum í dag auglýsing frá sveitarstjórum og öðrum fyrirmönnum á Norðurlandi um álver á Bakka. Auglýsingin er birt í ljósi alvarlegra atburða í íslensku efnahagslífi og meðal efnis hennar er áskorun á ríkisstjórn Íslands, með leyfi forseta:

„Við skorum á ríkisstjórn Íslands að taka af skarið og gera allt sem í hennar valdi stendur til að hægt sé að taka ákvörðun um byggingu álvers á Bakka sem allra fyrst og stuðla þannig að framförum íslensku þjóðinni til heilla.“

Ég verð að viðurkenna að auglýsingin kemur mér nokkuð á óvart. Vitað er hver hugur forustumanna á Norðurlandi er til verkefnisins og enginn efast um að þeir telji það til þjóðþrifa í héraði sínu. Um það geta menn deilt eða verið sammála. Hins vegar kemur á óvart að því sé haldið fram að framkvæmdir við álverið leysi úr neyðarástandi í banka- og gjaldeyrismálum og að menn telji að bygging álvers á Bakka nú þegar leysi úr atvinnuvanda sem hefur skapast einkum meðal starfsmanna fjármálastofnana, verktaka eða í þjónustu á suðvestursvæðinu. Einnig kemur á óvart að ríkisstjórnin skuli ekki hafa gert allt sem í hennar valdi stendur til að koma þessu af stað því hingað til hefur það verið talin sérstök stefna ríkisstjórnarinnar að álverið á Bakka verði að veruleika.

Jafnframt koma upp í hugann, hæstv. forseti, úrskurður hæstv. umhverfisráðherra um heildstætt umhverfismat, ákvörðun Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmda við Gjástykki og vinna við rammaáætlunina. Þetta þrennt tel ég að sveitarstjórnarmennirnir eigi við og þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Ætla ráðherra eða ríkisstjórn að bregðast við þessu og standa fyrir einhvers konar neyðarlögum til að flýta framkvæmdum á Bakka? Eru slíkar hugmyndir á sveimi hjá ríkisstjórninni eða hvernig hyggjast hún og hæstv. iðnaðarráðherra bregðast við ákallinu að norðan?