136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

álver á Bakka.

[11:02]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin hyggjast bregðast við ákallinu að norðan með sama þeli og spurningu hv. þingmanns, jafnaðargeði og skilningi. Ég hef fullan skilning á því að menn séu áhyggjufullir um afkomu sína á þessum viðsjárverðu tímum. Ríkisstjórn Íslands hefur lýst yfir stuðningi við álver á Bakka og ég hef sagt að ég vilji gera það sem hægt er til að flýta framkvæmdum þar. Ég hef lagt lóð mitt á þá vogarskál eins og fram hefur komið í sölum hins háa Alþingis.

Það liggur hins vegar ljóst fyrir að ríkisstjórnin hyggst ekki setja sérstök lög eða afnema lög sem nú eru í gildi. Ef hv. þingmaður á við hugmyndir, eins og þær sem hafa komið úr röðum Samtaka atvinnulífsins á fyrri skeiðum þessarar erfiðu atburðalotu, sem hafa falið í sér að lög um umhverfismat yrðu afnumin, þá kemur það ekki til greina. Sú tillaga nýtur heldur einskis stuðnings meðal þeirra sem eru í stóriðju eða orkuframkvæmdum og hafa forsvarsmenn iðnaðarins komið því skýrt til skila til mín sem iðnaðarráðherra að þeir hafi engan áhuga á slíku.

Að því er varðar framkvæmdir við Bakka þá eru þær núna í eðlilegum farvegi, (Gripið fram í.) þ.e. þær rannsóknarborholur sem hv. þm. Guðni Ágústsson gjammar hér fram í um eru í eðlilegum farvegi. Þær munu fara í umhverfismat sem verður lokið um miðjan apríl og að farsælli niðurstöðu kominni geta þær boranir farið fram næsta sumar, á þeim tíma sem ákveðið var í upphafi. Ríkisstjórnin hefur lagt hönd sína að því að greiða úr ákveðnum misskilningi sem kom upp og ég held að allir geti verið sáttir, jafnvel hv. þm. Mörður Árnason.