136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

álver á Bakka.

[11:05]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er ákaflega sáttur við svörin og það að ekkert sé hægt að gera til að flýta framkvæmdum við Bakka meira en orðið er, þannig að auglýsing sveitarstjórnarmanna og annarra höfðingja á Norðurlandi virðist ekki stefna að því heldur einhverju öðru, væntanlega til vekja athygli á þeim málstað.

Mér þykir leitt að ágætir sveitarstjórnarmenn á þessu góða landsvæði skuli taka þátt í talkórnum sem upphafist hefur síðustu daga og vikur um það að svarið við ástandinu sem ríkir sé að nýta auðlindir landsins eins og það heitir og varpa til þess til hliðar lögum, reglugerðum og sátt sem gerð hefur verið.

Hvað skapaði þetta ástand hér? Græðgi, aðhaldsleysi og óstjórn í viðskipta- og atvinnulífi og við björgum því ekki, forseti góður, með því að sýna græðgi, aðhaldsleysi og óstjórn gagnvart náttúru landsins og miðunum umhverfis það.