136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

vatnalög.

23. mál
[11:10]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna skjótri afgreiðslu málsins og hvet hæstv. iðnaðarráðherra að láta ekki bíða eftir sér með að skipa þá nefnd sem frumvarp þetta mælir fyrir um. Ég kveð mér einungis hljóðs hér vegna dagsetninganna sem um ræðir. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ný og breytt vatnalög taki gildi 1. júlí 2010. Jafnframt er tekið fram í greinargerð með frumvarpinu að vinnan við lögin og breytingarnar skuli haldast í hendur við innleiðingu vatnatilskipunar, sem var ein af þeim kröfum sem sett var á oddinn í þeirri miklu vinnu sem fram fór þegar verið var að koma í gegn lögunum sem nú hefur verið ákveðið að breyta.

Í fylgiskjali II með frumvarpinu kemur fram að vatnatilskipun Evrópusambandsins sem samþykkt var árið 2000 var tekin upp í EES-samninginn haustið 2007 og segir að lögleiðingu hennar hér á landi eigi að ljúka fyrir haustið 2010. Við gætum staðið frammi fyrir því að dagsetningin í júlí 2010 sé fullsnemmbær ef vinnan bregst eða tekur lengri tíma en ætlað er. Haustið 2010 er í raun tímamörk vatnatilskipunarinnar og því kannski eðlilegt að við áttum okkur á því að nýju vatnalögin fylgja vatnatilskipuninni og gæti gildisdagsetningin frestast fram á haustið.

Að öðru leyti er ég afar ánægð með það að nefndin, sem skilaði af sér til hæstv. iðnaðarráðherra, skuli hafa lokið verkum sínum með glæsilegri skýrslu og sömuleiðis með það hversu vel hefur verið brugðist við af hæstv. iðnaðarráðherra og hv. iðnaðarnefnd við að koma þessu máli í höfn.