136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

almenn hegningarlög.

33. mál
[11:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessar umræður og þær skýringar sem fram hafa komið hjá hv. formanni allsherjarnefndar á því hvað gerðist hér á þinginu. Þegar þetta mál hafði verið afgreitt frá nefndinni komu fram breytingartillögur sem ekki höfðu verið ræddar í nefndinni frá hv. þm. Atla Gíslasyni og þær breytingartillögur urðu til þess að afgreiðsla málsins varð með þeim hætti sem lýst var hér áður. Málið náði ekki fram að ganga í þinginu, hvorki síðastliðið vor né á fundum okkar í september.

Það er alveg skýrt að mjög einkennilega var að þessu máli staðið af hálfu hv. þm. Atla Gíslasonar og í raun og veru lagður steinn í götu þess að frumvarpið næði fram að ganga. Ég harma það og tel að með því hafi verið unnið gegn mikilvægum hagsmunum sem varða rannsóknir mála sem standa nú yfir. Rannsóknarmenn höfðu gert ráð fyrir því að frumvarpið yrði að lögum eins og samstaðan í allsherjarnefnd gaf til kynna en síðan kom það öllum í opna skjöldu að málið skyldi lenda í einhverjum undandrætti og vegna þess að fram komu breytingartillögur eftir að frumvarpið hafði verið afgreitt úr nefndinni með þeirri samstöðu sem þar var.

Mér finnst þetta líka mjög óeðlileg málsmeðferð hér í þinginu og raunar mjög óeðlileg fyrir mig sem flutningsmann frumvarps um afmarkaða þætti um breytingar á almennum hegningarlögum að þurfa að sæta því að í meðferð þingsins komi síðan fram breytingartillögur um raunar allt annað efni en varðar frumvarpið sjálft. Ég tel að hér hafi ekki verið þinglega að máli staðið og ítreka þá skoðun mína og henni hefur í sjálfu sér ekki verið hnekkt þótt að þingið hafi látið þetta yfir sig ganga.

Það kom líka fram í máli hv. þm. Atla Gíslasonar — annars vegar segir hann að það sé gagnrýnisvert hvað hryðjuverkahugtakið er óljóst og óskilgreint og að athugasemdir hafi verið gerðar við það af alþjóðlegum eftirlitsaðilum. Á því er tekið hér í frumvarpinu. Vísað er til þessara athugasemda. Gerðar eru breytingar á 100. gr. laganna sem um þetta mál fjallar til þess að koma til móts við það sjónarmið. Því er ekki hægt að standa hér og láta eins og ekkert hafi í skorist varðandi þennan þátt. Tekið er á málinu í frumvarpinu og tekið mið af þeirri gagnrýni sem fram hefur komið.

Hv. þingmaður kýs hins vegar að fara út á þær brautir að skilgreina hugtakið hryðjuverk með allt öðrum hætti en nokkrum öðrum manni hefur dottið í hug, að vilja fella undir það heimilisofbeldi og nauðganir. Að þannig beri að líta á að slíkan verknað eigi að fella undir hryðjuverkahugtakið eins og það er um rætt hér.

Hann gagnrýnir það að 4. gr. sé eitthvað sérstaklega óljós. En hvernig getur hún verið óljós nema þegar hv. þingmaður nálgast þetta með þeim hætti sem hann vill. Ef við fellum nauðgun og heimilisofbeldi undir hugtakið hryðjuverk samkvæmt þessum lögum verður náttúrlega margt óljóst. En í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði ný málsgrein þar sem verið er að tala um beina fjármögnun hryðjuverka, að hún verði gerð refsiverð og varði allt að 16 ára fangelsi. Í greinargerð stendur, með leyfi forseta:

„Ákvæði 1. mgr. 100. gr. b er takmarkað samkvæmt orðalagi sínu við beinan eða óbeinan stuðning við mann, félag eða hóp sem fremur eða hefur þann tilgang að fremja hryðjuverk skv. 100. gr. a með því að leggja fram fé eða veita annan fjárhagslegan stuðning, útvega eða safna saman fjármagni eða með öðrum hætti að gera fjármagn aðgengilegt. Með 4. gr. frumvarpsins eru tekin af öll tvímæli um að refsinæmi beinnar fjármögnunar á hryðjuverki sé gerð sérstaklega refsinæm samkvæmt hegningarlögum, hvað sem líður vangaveltum um inntak og gildissvið hins almenna hlutdeildarákvæðis í 22. gr. almennra hegningarlaga.“

Þarna bera menn fyrir sig afstöðu alþjóðlegu eftirlitsnefndarinnar.

Ef menn líta hins vegar þannig á eins og hv. þingmaður að fella beri nauðgun og heimilisofbeldi undir hugtakið hryðjuverk samkvæmt þessum lögum vakna bæði spurningar um þetta atriði og mörg önnur.

Ég tel að hv. þingmaður sé á villigötum þegar hann talar á þann veg að við séum að fjalla um heimilisofbeldi og nauðganir þegar við ræðum þessi lög hér og hugtakið hryðjuverk. Ég skora á hann að líta frekar á það sem sérstakt álitaefni og sérstakt frumvarpsefni sem hann leggi þá fyrir þingið — að við ræðum það sérstaklega og líka hugmyndir hans um að hér sé tekin upp hin svokallaða sænska leið varðandi vændi, að lagt verði fram sérstakt frumvarp í stað þess að nota tækifærið þegar við flytjum frumvarp um stöðu okkar gagnvart alþjóðlegum samningum og skilyrðum sem ber að uppfylla. Mér finnst ekki rétt að fara að blanda allt öðrum ágreiningsefnum inn í málið þegar litið er til þeirra þátta — það er að nokkru leyti tilræði við málið sem hér er til umræðu sem hv. þingmaður segir í hinu orðinu að hann styðji.

Og það að ekki liggi fyrir neitt hættumat varðandi hryðjuverk, það liggi fyrir hættumat varðandi hryðjuverk innan heimilanna og gagnvart konum. Það að ekki liggi fyrir hættumat sem geri okkur skylt að velta þeim málum fyrir okkur eins og gert sé í frumvarpinu er alrangt. Við erum hér að framfylgja alþjóðlegum skuldbindingum varðandi skyldur ríkja til þess að berjast gegn hryðjuverkum og þar liggur að baki alþjóðlegt hættumat. Þeir alþjóðasamningar hefðu ekki verið gerðir nema þær alþjóðastofnanir og þeir alþjóðafundir og þeir sérfræðingar sem hafa fjallað um þessi mál hefðu lagt til grundvallar hættumat sem er mun víðtækara en hv. þm. Atli Gíslason virðist vilja viðhafa þegar verið er að skoða þessa hluti.

Við erum ekki að fjalla hér um hættumat sem byggist á því að Ísland sé sérstaklega útsett fyrir þessa starfsemi. Við erum, eins og hv. formaður allsherjarnefndar rakti, að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi til að tryggja þær aðstæður hvarvetna að aðilar sem leggja á ráðin um hryðjuverk geti ekki búið um sig, komið sér fyrir og hagað sér þannig að þeir geti stundað hina hrikalegu iðju sína.

Mér finnst mikil vanþekking á því hvað um er að ræða einkenna ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar um þessi mál, hvað hann vill gera lítið úr þeim alþjóðasjónarmiðum sem liggja að baki þeim alþjóðaskuldbindingum og alþjóðasamningum sem gerðir hafa verið og við erum hér að laga okkur að.

Ég vil því ítreka áskorun mína til hans um að þau mál sem hann telur að séu mjög brýn — ef þau eru jafnbrýn og hann lýsir hlýtur þingheimur að fallast á það þegar hann flytur um þau sérstök frumvörp og rökstyður þau frá efni þess máls með hliðsjón af ákvæðum í hegningarlögunum en reynir ekki að bregða fæti fyrir þetta mál með því að blanda óskyldum atriðum inn í það.