136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

almenn hegningarlög.

33. mál
[11:52]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég er ásakaður um að hafa farið fram með óþinglegum hætti. Það eru stór orð. Ég verð að benda á að þær breytingartillögur allar eða allflestar sem ég lagði til á frumvarpinu lágu fyrir Alþingi í frumvarpsformi, bæði breyting á almennum hegningarlögum varðandi vændiskaupin sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur haft forgöngu um og fleiri frumvörp lágu fyrir þinginu, en fengust ekki rædd í allsherjarnefnd. Þau fengust ekki afgreidd frekar en svo fjölmörg önnur þingmannafrumvörp. En við, mjög margir þingmenn, teljum löst á þingstörfum hve þingið er ríkisstjórnarmiðað og rödd okkar eða vald Alþingis lítið.

Það var einfalt mál í þessum tilvikum að fella þá þessar breytingartillögur og samþykkja frumvarpið í vor eða í haust. Við höfðum þessar leiðir uppi í öðrum málum þar sem við lögðum fram breytingartillögur. Til að koma þeim inn í lýðræðislega umræðu og í lýðræðislegri umræðu á að taka afstöðu til mála, samþykkja eða fella. Við vildum gera frumvarpið betra en ekki var gefinn kostur á því.

Ég get hins vegar sagt að umfjöllun allsherjarnefndar, ég hef ekki gagnrýnt hana, hún var vönduð. En þessi mál okkar komast ekki að og það er fullkomlega þinglegt að gera breytingartillögur á öllum stigum meðferðar frumvarpa fyrir þinginu.

Ég er að tala um forgangsröðun mála. Ef ég er á villigötum, hæstv. dómsmálaráðherra, í því að forgangsraða því að berjast gegn kynbundnu ofbeldi gegn konum, heimilisofbeldi, vændi og mansali, þá ætla ég að vera það áfram. En ég held að ég gangi ekki einn á þeim villigötum. Ég held að meiri hluti þjóðarinnar gangi á þeim villigötum ef villigötur skyldi kalla. Og það á að forgangsraða í löggæslu og réttarvörslukerfinu þar sem nauðsynin er brýnust, það er ekki flóknara en svo.

Hæstv. dómsmálaráðherra ástundar það að gefa þeim sem hér stendur einkunnir. Ég vil bara segja að ef ég á að gefa einkunn hefur réttarvörslukerfið brugðist að því er varðar kynbundið ofbeldi. Ég nefni það til áréttingar að af öllum þeim kærum sem bárust til lögreglu vegna nauðgana á árinu 2004 eða 2005 leiddu innan við 5% til sakfellingar fyrir dómi. Afleiðingar nauðgana eru hryllilegar. Ég hef löngum sagt að þær feli í sér sálrænt morð ef ekkert er að gert. Það er hægt að gera ýmislegt þar og það er hægt að lækna meinið. En ég er í pólitík til að forgangsraða og taka á brýnustu hagsmunamálum nútímans. Ef ég kem því ekki að nema með því að gera breytingartillögur við hegningarlögin þegar frumvörp koma fram þá geri ég það í framtíðinni.