136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

hönnun og stækkun Þorlákshafnar.

22. mál
[13:51]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Stórskipahöfn í Þorlákshöfn er auðvitað sjálfsagt mál og ég er einn af meðflutningsmönnum hv. þm. Árna Johnsens á þessari þingsályktunartillögu. Þetta er mjög þarft verk. Í Þorlákshöfn er í dag flutt mikið út af vikri. Væntanlegur er mikill útflutningur á vatni, vatnsútflutningur. Þegar vatnsverksmiðjan verður komin á fullt verður það gríðarlegt magn. Eftir því sem ég best veit þá er talað um að þegar allt verður komið á fulla ferð í vatnsútflutningnum fari einn gámur á þriggja mínútna fresti frá verksmiðjunni niður að höfn. Menn eru jafnvel með hugmyndir um að setja upp járnbrautarteina og flytja vatnið þannig niður að höfn.

Það er auðvitað full þörf á því núna að við hugleiðum hvernig við getum nýtt orkuna. Við þurfum að fara fram á það við Landsvirkjun að hún endurskoði hugmyndir sínar um stóriðju með því að virkja neðri hluta Þjórsár. Þetta eru hlutir sem gætu auðveldað atvinnuuppbyggingu. Ef við gætum fengið útlendinga til að koma inn í landið með peninga þá væri enginn staður hagkvæmari þegar búið er að ákveða að virkja í Helguvík og á Bakka við Húsavík en að fara í stóriðjuframkvæmdir í Þorlákshöfn eða einhvers konar stóriðju þar.

Það liggur fyrir að hvergi er framleitt meira rafmagn en einmitt í Árnes- og Rangárvallasýslum og þetta er eina höfnin á því svæði í dag sem er möguleg fyrir útflutning á ýmiss konar vöru. Auðvitað er verið að byggja líka höfn núna austar í kjördæminu, þ.e. á Bakka, sem gæti orðið útflutningshöfn með tíð og tíma ef hún verður alvöruhöfn sem ég held að hún verði. Þegar búið verður að setja yfir 20 milljarða í hana verður kannski hægt að nota hana. Þá verður þar stórskipahöfn líka þó svo að ég hafi ekki verið sammála því að fara í þær framkvæmdir. Ég vildi frekar fara í framkvæmdir í Þorlákshöfn. En það er annað mál og framkvæmdir eru hafnar þannig að vonandi hefur maður haft rangt fyrir sér hvað varðar höfnina á Bakka í framtíðinni.

Það er mjög þarft að undirbúa stórskipahöfn í Þorlákshöfn og standa klár að því, því að slíkt tekur allt sinn tíma. Og þó svo að menn séu að byrja á því að undirbúa stækkun og rannsóknir tekur þetta langan tíma og vonandi verðum við komin í annað umhverfi en við erum í akkúrat í dag þegar við getum farið í framkvæmdir þarna, sem verður vonandi sem fyrst.

En þegar verið er að tala um orku í Árnessýslu má ekki gleyma því að það eru bara nokkrir kílómetrar frá þessari væntanlegu höfn og upp í Hellisheiðina. Þar er mikil orkuframleiðsla sem hægt væri að nýta til ýmiss konar atvinnustarfsemi í Þorlákshöfn. Þess vegna held ég að allir sjái að það er auðvitað sjálfsagt að fara í framkvæmdir eða rannsóknir og undirbúning fyrir stækkun Þorlákshafnar eða jafnvel nýja höfn fyrir stórskip í Þorlákshöfn .

Ekki má gleyma því að hv. þm. Kjartan Ólafsson flutti ásamt öðrum þingmönnum úr Suðurkjördæmi þingsályktunartillögu um veg yfir Kjöl sem gæti einmitt orðið til þess að mikill útflutningur á fiski og öðrum sjávarafurðum yrði frá Norðurlandi í gegnum Þorlákshöfn. Það mundi stytta siglingaleið verulega að sigla með fisk frá Þorlákshöfn fremur en frá Eyjafjarðarsvæðinu. Mér sýnist því ef af þessu verður að þetta yrði mjög gott fyrir þjóðfélagið í heild sinni og allir mundu njóta góðs af.