136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

stofnun barnamenningarhúss.

24. mál
[14:27]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um stofnun barnamenningarhúss. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Katrín Júlíusdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Jón Magnússon. Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela menntamálaráðherra að setja á stofn starfshóp sem undirbúi stofnun barnamenningarhúss, móti því stefnu, finni húsnæði og geri tillögu um fjárhagsgrundvöll til fimm ára. Þar verði miðstöð fyrir menningarstarf fyrir börn, með börnum og skapað af börnum. Stefnt verði að því að slíkt hús geti hafið störf á degi barnsins í maímánuði 2010.

Mér finnst við hæfi að gerast dálítið söguleg þegar við ræðum um barnamenningu því barnamenning er eldri menning en við áttum okkur oft á. Börn eru reyndar ekki viðurkennd sem börn, svona menningarlega, fyrr en á 18. öld. Þau voru fremur talin vera litlir fullorðnir og það tengist einfaldlega þeirri samfélagsgerð sem við höfðum þar sem fólk bjó í dreifbýli og börn tóku þátt í sömu störfum og fullorðnir og neyttu sömu menningar og fullorðnir. Börn deildu með fullorðnum lífi, kjörum og menningu. En bæði með þéttbýlismyndun, þar sem börn og konur fara meira inn á heimili en karlmenn sækja störf utan heimilis, og svo auðvitað með upplýsingarstefnunni þá breytist þetta hugarfar. Börnin þurftu að fá sína menningu og konurnar sína menningu og á sama tíma, og það er dálítið merkilegt, þá verða líka til afþreyingarbókmenntir og það verða til barnabókmenntir. Um leið tengist þetta upplýsingunni því upplýsingarmenn 18. aldarinnar höfðu mikinn uppeldisfræðilegan áhuga og vildu gjarnan nýta bókmenntirnar til að koma góðum boðskap til barnanna. Þeir vildu uppræta hjátrú og hindurvitni og mennta fólk og efla sjálfsvitund miðstéttarinnar. Það er mjög áhugavert að kynna sér barnabækur sem bera þessu vitni.

Fyrsta íslenska barnabókin, sem hefur verið skilgreind sem slík, kom út árið 1780 og það var ljóðabók, Barnaljóð, eftir séra Vigfús Jónsson sem orti ljóðaflokkinn handa dóttur sinni árið 1739 en hún var ekki gefin út fyrr en 1780. Þetta eru heilræðaljóð fyrir börn og mjög gaman að lesa þau heilræði svona tveimur öldum síðar. En það minnir einna helst á heilræðakafla Hávamála, bara ætlaðan fyrir börn.

Barnabækur hafa síðan þróast eins og aðrar bókmenntir. Rómantíska stefnan hafði áhrif á barnabækur eins og aðrar bækur og við þekkjum öll Lísu í Undralandi sem er dæmi um rómantíska barnabók. Við þekkjum listævintýri H.C. Andersen sem endursamdi dönsk ævintýri og skrifaði einnig frumsamin ævintýri og við eigum auðvitað okkar ágæta Jónas Hallgrímsson sem ekki var einungis ljóðskáld heldur samdi ævintýrin Leggur og skel, Fífillinn og hunangsflugan og Stúlkan í turninum og svo auðvitað hina stórkostlegu unglingasögu, Grasaferð, þar sem er fengist við kynjamyndir barna og unglinga þegar tvö systkin fara í grasaferð og eru að uppgötva hvernig það er að ganga inn í heim hinna fullorðnu.

Raunsæja stefnan hefur síðan áhrif. Torfhildur Hólm skrifaði fyrir börn og það má sjá hvernig bókmenntasagan þróast í barnabókunum en af einhverjum orsökum hafa barnabækurnar ekki fengið sama sess og hinar hefðbundnu fullorðinsbókmenntir. Við eigum auðvitað gríðarlega stólpa í barnabókasögu okkar og þá má nefna Jón Sveinsson eða Nonna, Sigurbjörn Sveinsson, Hendrik Ottósson, Stefán Júlíusson, Hreiðar Stefánsson og Jennu Jensdóttur, Stefán Jónsson, Ragnheiði Jónsdóttur og fleiri og alltaf hefur þeim farið fjölgandi sem betur fer, ekki síst eftir tíma Guðrúnar Helgadóttur sem þótti slá mjög merkan tón þegar hún kom fram á sjónarsviðið en hún er enn að skrifa fyrir þennan mikilvæga lesendahóp.

Barnabókmenntir eru auðvitað ekki eina tegund barnamenningar en þær eru ákveðin undirstaða í íslenskri barnamenningu alveg eins og menning okkar byggist mjög mikið á bókmenningunni. Það er ekki að ósekju sem við erum kölluð söguþjóðin og ég held að barnabókmenntir skapi ákveðna undirstöðu fyrir það hvernig við hugsum um barnamenningu. En það má auðvitað nefna svo ótalmargt fleira, t.d. þá tónlist sem hefur verið samin fyrir börn, Hrekkjusvínin og Eniga meniga, barnaefnið í sjónvarpi sem er náttúrlega stórmerkilegt og nátengt bókmenningunni. Ég minni hérna á brandarabrúðuna Pál Vilhjálmsson sem seinna varð aðalsöguhetja í bók Guðrúnar Helgadóttur, eða hver man ekki eftir leikfimikennaranum sem setti sig á háan hest eða slagorðinu allt í steik sem Palli samdi fyrir kjötkaupmanninn.

Ég hef ekki nefnt leikhús fyrir börn en leikhúsin hafa sinnt sínu hlutverki alveg frábærlega og við getum bara nefnt þær sýningar sem hafa verið í gangi núna, t.d. Óvita, fyrir norðan, Skoppu og Skrítlu, Gott kvöld, Skilaboðaskjóðuna, Einar Áskel og fleira. Það er því margt að gerast á sviði barnamenningar og þá er ég að tala um menningu fyrir börn.

Í þingsályktunartillögunni og fylgiskjali með henni sem er skýrsla unnin af Sigurði Valgeirssyni fyrir Samtök um barnamenningarstofnun sem kom út í júní 2004 og fjallar um hvaða leiðir er hægt að fara til að útbúa miðstöð um barnamenningu þá hefur þetta verið skilgreint í þrennt. Það er menning fyrir börn eins og ég hef verið að fara yfir hér, það er menning sköpuð af börnum og menning sem unnin er með börnum. Eins og kemur fram í greinargerðinni er hægt að nefna óteljandi hluti sem er verið að vinna með börnum hér á landi. Þar nægir að nefna skólana; leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, og alla okkar góðu listnámsskóla hvort sem það eru myndlistarskólar, tónlistarskólar eða dansskólar.

Ekki vil ég láta hjá líða að nefna bókasöfnin sem mörg hver hafa staðið sig algjörlega frábærlega. Listasöfn, minjasöfn og alls kyns söfn hafa í raun gert safnaheiminn miklu barnvænni en áður tíðkaðist. En það sem við flutningsmenn tillögunnar erum að horfa á er að aldrei hefur verið ráðist í það að koma á fót neinni sérstakri miðstöð sem tengir saman þessar ólíku greinar, sinnir því hlutverki að miðla menningu fyrir börn, að kynna menningu fyrir börnum og hvetja börn til list- og menningarsköpunar.

Í umræddri skýrslu er talsvert horft til Norðurlanda og það er ekki að ósekju þar sem Norðurlöndin hafa staðið mjög framarlega þegar kemur að barnamenningu. Þar hafa menn farið ýmsar leiðir. En eins og kemur fram hér í greinargerðinni erum við aðilar að norrænu samstarfi en á fjórum Norðurlandanna, þ.e. á öllum nema Íslandi, eru reknar sérstakar barnabókastofnanir sem eingöngu fást við bókmenntirnar og síðan er mikill fjöldi barnamenningarhúsa. Í skýrslu Sigurðar Valgeirssonar kemur fram að árið 2003 voru starfandi 19 barnamenningarhús í Svíþjóð, 15 í Danmörku, eitt í Noregi og átta í Finnlandi. Þessi hús eru mjög ólík innbyrðis og með ólíkar áherslur. Þar er ýmist verið að vinna með börnunum eða verið að kynna börnum menningu eða verið að einbeita sér að rannsóknum á barnamenningu. Ef þessi tillaga hlýtur brautargengi þá eru því ýmsir möguleikar í stöðunni, hvert við gætum leitt starfsemi slíks barnamenningarhúss.

Í skýrslunni eru sett fram tvö líkön, ef við getum orðað það svo, þ.e. líkön um hvernig barnamenningarhús er hægt að stofna og teknar tvær ólíkar gerðir. Það er annars vegar Barnas hus í Björgvin í Noregi sem er barnamenningarhús sem leggur samt mesta áherslu á að starfa út yfir húsið sjálft, út fyrir veggi hússins, tengir saman ólíka aðila, er út um alla borg og fer mikið inn í skólana og virkar sem einhvers konar miðlun inn í skólastarf, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla til að koma lista- og menningarverkefnum sínum á framfæri og ýta um leið undir listsköpun barna. Húsið, per se, er því kannski ekki endilega svo mikil stofnun heldur er starfsemin miklu fremur utan við húsið.

Svo er lýst öðru dæmi, og ég hvet hv. þingmenn til að lesa skýrsluna því það er mjög margt áhugavert sem þar kemur fram um þetta, en hitt líkanið sem er nefnt er barnamenningarhús í Óðinsvéum sem kallast Eldfærin og er þar að sjálfsögðu vísað í ævintýri H.C. Andersen sem hér var áður nefndur. Þar er áherslan fyrst og fremst á húsið sjálft og starfsemina sem þar fer fram og þangað geta börn og fullorðnir mætt og sótt sér sína menningu. Þarna geta börnin komið og snert hluti, þau geta kynnt sér eftirlætishöfunda sína eða barnatónlist eða eitthvað slíkt og húsið sjálft er eiginlega eins og mjög lifandi safn.

Það eru náttúrlega fjöldamörg önnur slík hús eins og ég fór yfir hér áðan. Ég heimsótti sjálf Junibacken í Stokkhólmi sem kannski einhverjir hér hafa heimsótt. Það er safn í Stokkhólmi sem átti einkum að snúast um persónur Astrid Lindgren sem er auðvitað einn fremsti barnabókahöfundur Norðurlanda. En hún sjálf setti það skilyrði að safnið eða húsið mundi líka snúast um aðra norræna höfunda.

Það er algjörlega mögnuð upplifun og ég hvet alla sem leið eiga til Stokkhólms að heimsækja þetta og helst náttúrlega með börn því þarna getur maður gengið inn í Múmínhúsið, einkum ef maður er mjög lágvaxinn og lítill. Þetta er sem sagt ætlað börnum fyrst og fremst. Maður getur keyrt í lest og heimsótt helstu persónur norrænna barnabókmennta, t.d. horft á leiksýningu, Kalla á þakinu og fleira, hlustað á tónlist og allt er þetta sniðið að þörfum barna. Ég verð að segja að mér fannst þetta mjög heillandi heimsókn þegar ég fór þangað og kynntist þessu.

Þetta er í Stokkhólmi og Svíar hafa auðvitað verið mjög öflugir og eins og ég sagði. Þar voru 19 barnamenningarhús starfandi 2003 sem sýnir þá áherslu sem þeir hafa lagt á þetta. Ég held að það sé alveg orðið tímabært fyrir okkur að fara að horfa aðeins á það hvernig við getum eflt þetta starf því það er svo gríðarlega mikilvæg undirstaða fyrir allt annað menningarstarf í landinu. Við tölum oft um menninguna og við höfum nokkrum sinnum í þessum sal rætt um mikilvægi íslenskrar tungu og hvort ekki beri að stjórnarskrárbinda stöðu hennar og annað slíkt. Við höfum margoft lýst yfir áhyggjum af minnkandi lestri barna og unglinga sem sýnt er fram á í rannsóknum. Við vitum líka að þegar börn og unglingar kynnast spennandi lesefni þá skortir iðulega ekki áhugann og þá skiptir máli að koma menningunni út til barnanna.

Ég hef þá trú að það besta sem við getum gert til þess að viðhalda tungunni og efla menningarstarf í landinu sé að ala upp fólk sem er menningarlega meðvitað, hvaða leið sem við förum í því. Það getum við einmitt gert með því að skapa vettvang fyrir þá sem starfa að barnamenningu og ýtt undir hana, t.d. með svona barnamenningarhúsi.

Við eigum fjölda menningarstofnana sem sinna menningu fyrir fullorðna en með þessu erum við líka að viðurkenna sérstöðu þeirra vinna að menningu fyrir börn og hún lýtur ekki nákvæmlega sömu lögmálum. Þetta er auðvitað sérmarkhópur. Eins og ég fór yfir áðan er ekki langt síðan börn voru bara litlir fullorðnir. Nú erum við farin að viðurkenna að börn eru börn og þetta er sjálfstætt æviskeið sem hefur sína sérstöðu. Mér finnst því mjög mikilvægt að til verði slík miðstöð, fyrir það menningarstarf sem nýtur þessarar sérstöðu.

Við þekkjum það t.d. að barnabækur fá alltaf styttri ritdóma en „alvörubækur“ og alvörubækur set ég innan gæsalappa. Barnamenningin fær alltaf styttri umfjöllun í öllum menningarþáttum en fullorðinsmenningin. Barnabókmenntir eru kenndar í háskólanum annað hvert ár, þar er þessu öllu dembt saman. Það skiptir því máli, að mínu viti, að ýta undir þessa menningarstarfsemi og hefja hana til vegs og virðingar, ekki síst út af þeim sjónarmiðum sem ég hef nefnt um lestur barna, viðhald tungunnar og menningarstarfsemi framtíðarinnar.

Ég vona því að þessi tillaga fái notið brautargengis og ef umsagnir um hana verða jákvæðar þá vonast ég auðvitað til þess að hún hljóti afgreiðslu á þessu þingi.