136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

aðgengi í gömlu íbúðarhúsnæði.

43. mál
[14:41]
Horfa

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf):

Herra forseti. Undirritaður og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafa leyft sér að leggja fram hér tillögu til þingsályktunar sem hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela félags- og tryggingamálaráðherra að gera úttekt á mikilvægi þess að bæta aðgengi í gömlu íbúðarhúsnæði á Íslandi svo að fötluðum, öldruðum, barnafólki og öðrum sem þess þarfnast verði gert mögulegt að búa lengur í íbúðum sínum en nú er hægt eða festa kaup á hentugum íbúðum í eldra húsnæði.

Þannig hljóðar þessi þingsályktunartillaga. Ég geri mér grein fyrir því að þetta mál er sennilega ekki efst í huga flestra Íslendinga eða alþingismanna á þessari ögurstundu. En lífið verður að halda áfram og við verðum líka að fjalla um gagnlega og hversdagslega hluti. Það er af þeim sökum og í þeim anda sem þessi tillaga er lögð fram vegna þess að hún hefur sína þýðingu á sínum stað.

Aðgengi að íbúðarhúsnæði skiptir miklu máli, ekki síst fyrir þá sem búa við fötlun vegna örorku, aldurs eða af öðrum ástæðum. Það er hægt að grípa til aðgerða sem greiða fyrir góðu aðgengi fyrir flest fólk, fatlað sem ófatlað. Það hefur meira að segja komið til meðferðar og umræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og árið 1973 var gerð samhljóða samþykkt um alþjóðlegar reglur varðandi einstaklinga með hvers konar fötlun og aðgengi þeirra að húsnæði eða heimilum eftir atvikum. Þessi samþykkt var gerð 1973 og því hefur í 30 ár eða jafnvel lengur verið skipulega unnið að því, einkum og sér í lagi á Norðurlöndum, að ganga þannig frá íbúðarhúsnæði og öðrum mannvirkjum að greiður aðgangur sé fyrir sem flesta. Skipulags- og byggingarlögum hefur verið breytt að þessu leyti og skýlaus ákvæði sett þar inn um aðgengi fyrir alla.

Hins vegar er það svo fjölmörg íbúðarhús og þá er ég einkum og sér í lagi að tala um fjölbýlishús eða blokkir sem voru byggðar upp á Íslandi í ýmsum byggðarlögum, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu, sem voru annaðhvort fjögra eða fimm hæða, ekki mikið stærri og þessi hús eru velflest án lyftna. Þetta hefur torveldað öryrkjum og öldruðum að búa í þessum húsum enda þótt fyrri kynslóðir, eldri kynslóðir búi af eðlilegum ástæðum kannski í auknum mæli í eldri húsum.

Það er engin launung á því að þetta mál er flutt hér fyrir beiðni aðila sem starfa á þessum vettvangi og þá vísa ég fyrst og fremst til Félagsbústaða sem er stofnun eða starfsemi sem lýtur að og rekur íbúðarhúsnæði og gegnir mjög mikilvægu félagslegu hlutverki í húsnæðismálum. Af þeirra hálfu hefur verið mælst til og við hv. þingmenn höfum tekið það upp á þingi í formi þessarar þingsályktunartillögu, að skipulags- og byggingarlögum og aðkomu að slíkum málum verði breytt til hagsbóta fyrir eigendur eða rekstraraðila fjölbýlishúsa til að mögulegt verði að setja upp lyftur í þessum húsum til að auðvelda aðkomu gamals fólks, hreyfihamlaðra, barnafjölskyldna og fleiri.

Það er staðreynd að eldra fólki fjölgar. Það býr mjög margt í húsum sem ekki eru með lyftum en eru þó fjölbýlishús. Þetta fólk vill gjarnan halda áfram að búa í húsum sínum eða geta keypt á skikkanlegum kjörum húsnæði sem í boði er af félagslegum ástæðum. Að okkar mati er því að þessu þjóðhagslegur ávinningur sem vert er að líta með jákvæðum augum.

Yrðu framangreindar hugmyndir að veruleika þá gefast möguleikar á að hafist verði handa við margvíslegar aðgerðir til að bæta aðgengi íbúa í íbúðir gamals húsnæðis. Slíkt er að okkar mati ekki aðeins þjóðhagslega hagkvæmt heldur tryggir það einnig bætt lífsskilyrði og aukin lífsgæði allra þeirra sem njóta munu góðs af slíkum aðgerðum.

Ég þarf ekki, herra forseti, að hafa framsöguna mikið lengri vegna þess að hér er verið að þrýsta á um að eitthvað jákvætt gerist á þessum vettvangi. Ég bind miklar vonir við að hv. þingnefnd bregðist skjótt við og afgreiði málið jákvætt frá sér og enn fremur vonast ég eftir jákvæðum viðbrögðum hjá félags- og tryggingamálaráðherra um að gerð úttekt á þessari stöðu og komið með tillögur til úrbóta.

Ég legg svo til herra forseti að þetta mál gangi til hv. félags- og tryggingamálanefndar.