136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

16. mál
[14:53]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég flyt ásamt þingmönnunum Grétari Mar Jónssyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni svohljóðandi tillögu til þingsályktunar um skipan lánamála:

„Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að leita leiða til að koma skipan húsnæðislána og lána til neytenda í svipað horf og annars staðar á Norðurlöndum þannig að verðtrygging verði afnumin og samkeppni á lánamarkaði fyrir neytendur tryggð. Gjaldtaka lánastofnana verði svipuð og annars staðar á Norðurlöndum. Þá láti ráðherra fara fram skoðun á orsökum þess að lánakjör neytenda eru önnur á Íslandi en um ræðir annars staðar í okkar heimshluta.“

Þessi þingsályktunartillaga er endurflutt en hún var flutt á síðasta þingi. Þegar tillagan var lögð fram var ekki brostið á það gjörningaveður sem nú er í íslenskum banka- og lánamálum og ætluðu fáir að til þess kæmi með þeim hætti sem um ræðir en hitt er annað mál að það er orðið. Samt sem áður hefur sú þingsályktunartillaga sem hér er flutt sjálfsagt aldrei verið eins mikilvæg og einmitt núna. Vegna hvers? Jú, vegna þess að aðstæður eru þannig í þjóðfélaginu að skuldir heimilanna nálgast að vera þúsund milljarðar og stór hluti þeirra verðtryggður og annar hluti gengistryggður og þá skiptir höfuðmáli fyrir líf og afkomu fólks að hagsmuna þess sé gætt.

Það er með ólíkindum hvernig farið hefur verið með íslenska lántakendur, íslenska neytendur hvað þetta varðar þar sem við, venjulegt fólk, höfum búið við mun lakari lánakjör en verið hafa í okkar heimshluta. Gerðar hafa verið sítrekaðar samanburðarkannanir, m.a. af hálfu Neytendasamtakanna og neytendasamtaka á Norðurlöndum, og niðurstaðan er alltaf sú sama: Bankaþjónusta á Íslandi er langdýrust og vextir hæstir og auk þess kemur verðtrygging. Þetta er niðurstaðan sem kemur fram og hefur verið alla þessa öld. Það er sá herkostnaður sem íslenskir neytendur hafa þurft að greiða til fjármálastofnana og menn hefðu kannski ætlað að þær stæðu þar af leiðandi betur að vígi en raun bar vitni en alla vega var ekki um annað að ræða en að íslenskir neytendur, íslenskir lántakendur greiddu sinn toll til þeirra og ríflega það. Það er staðreynd málsins.

Miðað við þær spár og þá framvindu sem er að verða í samfélagi okkar er ljóst að það verður mikil verðbólga. Miðað við það sem er að gerast og hefur gerst er ljóst að alla vega það sem eftir lifir þessa árs verður um að ræða verðbólgu sem sjálfsagt verður í tveggja stafa tölu þó að ég satt að segja voni að spár sem komu úr Danaveldi í gær frá Danske bank rætist ekki að neinu leyti en þar var því spáð að verðbólgan á Íslandi gæti jafnvel farið í þriggja stafa tölu. (MÁ: Danske bank hefur haft mjög rétt fyrir sér undanfarið.) Já, það kann vel að vera, hv. þm. Mörður Árnason, en ég vona að þeir hafi ekki rétt fyrir sér í þessu efni og við skulum vona að það taki ábyrg ríkisstjórn við af ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sem taki að sér stjórn efnahagsmálanna með eðlilegum og raunhæfum hætti til hagsbóta fyrir almenning í landinu.

Það gæti alla vega stefnt í gríðarlegt öngþveiti fyrir venjulegt fólk í landinu en eins og ég gat um áðan nálgast skuldir heimilanna að vera um þúsund milljarðar, meginhluti þeirra verðtryggður og/eða gengisbundinn. Það liggur því fyrir að hver einasta breyting sem verður, annars vegar vegna þess að gengið fellur eða að verðbólgan fer af stað, þýðir einfaldlega að höfuðstóll lánanna breytist og það vonda við verðtrygginguna er það að höfuðstóll lánanna hækkar. Í hvert skipti sem breyting verður á útreiknaðri vísitölu hækkar höfuðstóll lána og síðan er reiknað áfram af þessum upphækkaða höfuðstól við næstu mánaðamót af upphækkaðri vísitölu. Þannig er búið til kerfi þar sem fólk greiðir jafnvel fimmfaldan höfuðstól þess láns sem það fékk upphaflega.

Það liggur fyrir að verðtryggingin var tekin upp og sett á vegna þess að fólk treysti ekki gjaldmiðlinum. Á sínum tíma voru laun verðtryggð og lán verðtryggð og í sjálfu sér var það kerfi sem gat kannski haldist í hendur en síðan var verðtryggingin á laununum afnumin en eftir stóð verðtryggingin á lánunum. Það var gefið með öðrum hætti gagnvart þeim sem skulduðu og þurftu að hafa tekjur til að borga af lánunum en gagnvart vinnu fólksins í landinu.

Þróunin hefur orðið sú að íslensk heimili hafa orðið æ skuldsettari. Sú ástæða sem varð til þess að tekin var upp verðtrygging á sínum tíma var vegna ákveðins öngþveitis sem orðið var í íslenskum efnahags- og lánamálum þar sem verðbólga hafði verið mjög há um langt skeið og gera þurfti óvenjulegar, óeðlilegar ráðstafanir til að sporna gegn því að allt lánsfé hyrfi úr fjármálastofnunum. Hins vegar liggur fyrir að óeðlilegar ráðstafanir eiga að sjálfsögðu ekki að haldast þegar hlutirnir eru komnir í annan farveg. Við höfum því meginhlutann af þessari öld búið við a.m.k. gengislegan stöðugleika, allt þangað til fyrir tæpu ári síðan, þar sem íslenska krónan var einn sterkasti gjaldmiðill veraldar. Hún breyttist ekki til veikingar miðað við aðra gjaldmiðla, höfuðgjaldmiðla viðskiptaþjóða, heldur styrktist. Þá er spurningin: Hvaða áhrif hafði það á verðtrygginguna? Dró það úr hækkun höfuðstólsins? Svarið er nei. Þrátt fyrir það að íslenska krónan stæði óbreytt eða jafnvel styrktist gagnvart dollara, gagnvart pundi, gagnvart evru eða Norðurlandagjaldmiðlunum hækkuðu samt verðtryggðu lánin vegna þess að allar breytingar á verðlagi innan lands eða utan koma til hækkunar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Allt sem gerist í veröldinni er á ábyrgð og er áhætta íslenskra lántakenda. Það er ekki til sá gjaldmiðill sem á endanum þegar til lengri tíma er litið er jafnsterkur og vísitala neysluverðs til verðtryggingar. Enginn. Það er hægt að reikna það til lengri tímabila og það kemur alltaf sami hluturinn út.

Margir sem tóku gengisbundin lán fyrir stuttu síðan horfa að sjálfsögðu upp á það að höfuðstóll lánanna hefur hækkað gríðarlega. Fyrir rúmu ári voru menn varaðir við því, m.a. af Neytendasamtökunum, að taka gengisbundin lán miðað við þær aðstæður sem fyrir hendi voru í þjóðfélaginu vegna þess að hver einasti maður gat séð að gengið sem þá var gat ekki staðist, það var engin innstæða fyrir genginu. En vegna skammsýnnar efnahagsstjórnar var reynt að þráast við með þeim afleiðingum að við erum komin aftur til ársins 1960 eða fyrir þann tíma þar sem urðu að vera gjaldeyrishöft og gjaldeyrisskammtanir. Við erum komin aftur fyrir tíma viðreisnarstjórnarinnar. Það er alvarlegt mál og spurning með hvaða hætti unnið verður úr því en það er útilokað að það verði gert á kostnað þeirra einstaklinga sem tóku lán, að þeir eigi að bera þær byrðar og greiða kostnaðinn vegna þess ónýta gjaldmiðils sem við höfum haft og núna er hruninn. Það liggur ljóst fyrir. Og það hefur sjálfsagt aldrei verið jafnljóst og núna að ætli stjórnvöld sér að viðhalda þeirri verðtryggingu og þeim útreikningi sem notaður er til að reikna út vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, þá er hætt við að eigið fé stórs hluta fjölskyldnanna í landinu þurrkist upp, að skuldir á fasteignum verði hærri en verðmæti eignanna.

Borgaralega sinnað fólk leggur höfuðáherslu á að einstaklingarnir verði eignafólk, geti eignast hluti, og m.a. hefur verið talað um að það sé í raun spurning um það að fólk njóti frelsis að það hafi efnahagslegt svigrúm til að geta notið sín og nýtt sér aðstæður í þjóðfélaginu. Nú horfir svo við í þjóðfélagi okkar að hætt er við því að stór hluti fjölskyldna, sérstaklega ungt fólk, lendi í erfiðleikum með að greiða af skuldum sínum. Sagt hefur verið að þegar aðstæður eru orðnar slíkar að venjulegt fólk, skilafólk, telur hagkvæmara að snúa lyklinum í skránni, loka húsum sínum og ganga í burtu en að reyna að standa í skilum vegna þess að það er ekki hægt, þá verði friðurinn rofinn í samfélaginu. Ég tel því miður, virðulegi forseti, að við séum að þokast í þá átt að allt of margir standi frammi fyrir því að þrátt fyrir að hafa staðið í skilum undanfarin ár, greitt samviskusamlega af lánum sínum, sé höfuðstóllinn horfinn vegna þess að þetta óbærilega, ég vil segja djöfullega kerfi sem hefur verið fundið upp varðandi verðtrygginguna með upphækkun höfuðstólsins um hver mánaðamót þurrkar út eignina. Það er ekki bara verðbólgan sem er eins og þögull og kyrrlátur þjófur í húsum fólksins í landinu, heldur tekur verðtryggingin líka í burtu lífssparnað fólks og eyðileggur möguleika þess á því að geta notið afraksturs af vinnu sinni og erfiði og það er óásættanlegt. Hafi einhvern tíma verið hægt að tala um að það væri vitlaust gefið í samfélaginu þá er það m.a. með því að leggja drápsklyfjar á lántakendur í landinu þannig að þeir geti ekki með neinu móti staðið undir því, þegar staðið hefur verið að efnahagsmálum með þeim hætti sem nú er að stefnir í óðaverðbólgu og gjaldmiðillinn er í raun hruninn þannig að taka hefur þurft upp gjaldeyrisskömmtun. Því er nauðsynlegt sem aldrei fyrr að hér verði eðlilegur, venjulegur lánsfjármarkaður í landinu fyrir neytendur, fyrir fólkið og heimilin í landinu.