136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

16. mál
[15:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef mikla samúð með þessum málflutningi. Ég skil líka að þetta er frumvarp sem tekið er upp frá fyrra þingi og ekki er hægt að miða alla hluti við þá viðburði sem hér hafa orðið á undanförnum dögum.

Gjaldmiðillinn er ónýtur, það kom fram í máli 1. flutningsmanns, hv. þm. Jóns Magnússonar. Það er auðvitað það nýja í málinu að okkur hefur verið sýnt fram á það svart á hvítu að hann er ónýtur, það er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Það er ekki lengur spurning um tilfinningar, álit, þjóðrækni eða einhverja slíka hluti heldur er það ósköp einfaldlega ein af staðreyndunum í málinu.

Þar með held ég að við getum líka orðið sammála um verðtrygginguna. Menn hafa talað um að málflutningur af því tagi sem Jón Magnússon viðhefur hér sé popúlismi, m.a. vegna þess að verðtryggingin er illafnemanleg. Hún er eins konar lærisveinn galdramannsins að því leyti að hún var sett af stað og það er ekki hægt að stoppa hana. Ef hún yrði afnumin á morgun mundu vextirnir hækka um a.m.k. 15%, sem nemur núverandi verðbólgu, hver sem hún nú er, við vitum það ekki en síðustu tölur voru um 15%. Hún var víst 14% við síðustu mánaðamót. Þess vegna hlýtur maður að spyrja, með fullum skilningi á þeim aðstæðum sem verða til þess að flutningsmaður mælir fyrir þessu frumvarpi frá því í fyrra: Er ekki hið raunverulega mál það að þingheimur, stjórnvöld og aðrir í samfélaginu komi sér saman um að afnema hinn ónýta gjaldmiðil og taka upp nýjan með þeim hætti sem það er hægt? Ég held að hann sé í raun og veru innganga í Evrópusambandið og upptaka evru, a.m.k. er hann sá nærtækasti.