136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

16. mál
[15:12]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Magnússyni, 1. flutningsmanni þessarar tillögu, fyrir að taka undir ályktun mína og við virðumst vera sammála. Ég held að niðurstaða af þeirri gagnrýni sem kemur fram í þingsályktunartillögunni á peningastefnuna á Íslandi, á verðtrygginguna og á gjaldmiðilinn, hljóti að vera sú að við eigum að taka upp nýjan gjaldmiðil.

Við hv. þm. Jón Magnússon getum ekki klárað umræðuna um hvaða gjaldmiðill það eigi að vera en ég er ákveðinnar skoðunar í því efni. Það sem hv. þingmaður gæti kannski upplýst okkur um núna er þó það, með tilvísun til orða hans um núverandi ríkisstjórn Íslands áðan, hvort þeir tveir flutningsmenn sem með honum eru úr fjögurra manna þingflokki, og flokkur hans í heild, taka undir þá stefnu að nú beri okkur að skipta um gjaldmiðil, leggja af krónuna — sem er nú ekki þjóðlegri en það að hún heitir eftir höfuðfati erlends konungs — og taka upp nýjan, með hvaða hætti sem það kynni að verða gert.