136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

16. mál
[15:16]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða þingsályktunartillögu um skipan lánamála og að unnið verði að því að kjör hér á landi verði sambærileg lánakjörum sem þekkjast annars staðar á Norðurlöndum. Tillagan hefur verið flutt áður af þingmönnum Frjálslynda flokksins, á síðasta þingi. Reyndar fjölluðum við einnig um verðtrygginguna í tillögu á þingi á síðasta kjörtímabili, hvernig mætti vinna að því að afnema hana og taka hér upp sambærileg lánakjör, sérstaklega á húsnæðismarkaði, og gilda í öðrum nágrannalöndum okkar.

Þó að við ræðum þessa tillögu undir þeim sérstöku aðstæðum sem nú eru hér á landi, undirstrikar það bara hversu nauðsynlegt er að taka á þessu máli. Við gerum okkur vel grein fyrir því að það þarf að vinna að því skipulega að afnema verðtrygginguna og ég minni á orð hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, úr þessum ræðustól þegar við ræddum skýrslu hæstv. forsætisráðherra um að alveg ljóst væri að verðtryggingin væri að sliga heimilin ekki síður en hin gjaldeyristryggðu lán. Væntanlega eigum við í Frjálslynda flokknum bandamenn í ríkisstjórninni sem vilja líka afnema verðtrygginguna en við höfum haft sérstaka verðtryggingu sem miðast við tilbúinn útreikning vegna vísitölu neysluverðs. Vísitalan, og verðtryggingin þar af leiðandi, hefur orðið til þess að bæta við og hækka höfuðstól lánanna samkvæmt ákveðnum reglum. Þær hækkanir hafa fylgt lánunum alla tíð þar til þau hafa verið uppgreidd og þessu hafði verið komið á vegna verðbólgunnar.

Mismunur er á þeim tveimur aðallánum sem allar venjulegar fjölskyldur taka til fjárfestinga, þ.e. annars vegar lán með verðtryggingu, sem er almenna reglan, alla vega í húsnæðiskerfinu, hjá Íbúðalánasjóði, og hins vegar gengistryggðu lánunum sem bankar hafa á undanförnum árum haldið að fólki til þess að bera uppi kostnað og lánaskuldbindingar varðandi húsnæðiskaup.

Ef við tölum um ástandið eins og það er í dag mundu gengistryggðu lánin lækka ef gengi íslensku krónunnar færi aftur í eðlilegt horf. Stofninn þar hefur verið uppreiknaður á undanförnum vikum og menn hafa séð hann margfaldast. Gengistryggð lán hafa hækkað um 50–60% á skömmum tíma vegna þróunar gengisins. Það gengur þó alla vega til baka ef gengisskráningin á íslensku krónuna verður eðlileg aftur. Fyrir því höfum við svo sem enga örugga tryggingu eins og málum er komið hér á landi en vonandi tekst okkur það því að ella væri skaði fjölskyldna af því að hafa tekið gengisbundin lán alveg geigvænlega mikill.

Að því gefnu að gengið leiti aftur jafnvægis munu gengistryggð lán lækka en lán sem bundin eru með verðtryggingum munu ekki lækka. Þau halda áfram allri sinni verðtryggingu og menn bera þá byrði ár og síð og alla tíð hvort sem lánin eru til 25 ára eða 40 ára að hún hefur bæst við lánin. Við leggjum til í þingsályktunartillögunni að viðskiptaráðherra sé falið að leita leiða til að koma skipan húsnæðismála og lána til neytenda í svipað horf og annars staðar á Norðurlöndunum þannig að verðtrygging verði afnumin og samkeppni á lánamarkaði fyrir neytendur verði tryggð.

Þar að auki er ekki gaman að tala hér um samkeppni og eðlilega fjármálastarfsemi í landinu undir þessum kringumstæðum. En efni tillögunnar er jafngilt eftir sem áður og á jafnvel meira erindi inn í umræðuna en verið hefur á undanförnum árum og hefur mönnum þó fundist nóg um hvernig verðtryggð lán hafa hækkað. Það er alveg ljóst að greiðslubyrði verðtryggðra lána verður mörgum fjölskyldum verulega erfið á næstu mánuðum. Það er kannski einn mesti vandinn sem snýr að heimilunum í landinu hvernig innheimtan á ofurvöxnum skuldum mun verða, bæði gengistryggðum og vísitölutryggðum lánum með verðtryggingu, en þau hækka enn frekar að óbreyttu.

Við núverandi aðstæður væri eiginlega réttast að verðtryggingin væri tekin úr sambandi næstu þrjá mánuðina. Ég veit ekki hversu minnugir menn eru þeirra aðgerða sem gripið var til í Vestmannaeyjagosinu. Ef ég man rétt voru greiðsluskuldbindingar Vestmannaeyinga afnumdar um nokkurra mánaða skeið meðan þeir tókust á við afleiðingar gossins. Nú hefur öll þjóðin orðið fyrir áfalli og ég held að við þurfum virkilega að reyna að halda fjölskyldunum og atvinnulífinu gangandi. Ég held að í núverandi stöðu, með tilliti til þess sem hæstv. félagsmálaráðherra sagði varðandi gengistryggðu lánin, þurfi menn einnig að horfa til verðtryggðu lánanna. Ég beini þeirri áskorun til ríkisstjórnarinnar að báðir lánaflokkar, vísitölu- og verðtryggð lán og gengistryggð lán verði tekin til sérstakrar skoðunar við núverandi aðstæður. Oft var þörf en nú er nauðsyn að búa til farveg þannig að fjölskyldurnar haldi velli. Menn ættu að nota næstu þrjá mánuði til þess að reyna að finna farveg til að koma til móts við þá sem eru með verðtryggð lán. Við fjöllum um verðtrygginguna í þingmáli okkar og þingsályktun sem beinist að viðskiptaráðherra. Það held ég að sé nauðsynlegt og aldrei nauðsynlegra en nú.

Ef við Íslendingar ætlum að byggja upp þjóðfélag í nýrri og eðlilegri framtíð, sem við ætlum vonandi öll að gera, eigum við að stefna að því að hér á landi verði sambærileg lífskjör að því er varðar réttindi, laun og stöðu fólks og eru á öðrum Norðurlöndum.