136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

16. mál
[15:31]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Samúel Erni Erlingssyni sem benti á varðandi húsnæðisverðið að sú lækkun sem hefur orðið sem ætti að draga úr að öðru leyti hækkun vísitölunnar og ætti þá að koma skuldurum til góða, mælist ekki miðað við það ástand sem er á húsnæðismarkaðnum. Það er m.a. eitt af því sem sýnir hversu vafasamur þessi útreikningur er í heild og hvað hann getur verið háður ákveðnum sérkennilegum duttlungum. Ég hef stundum nefnt það sem dæmi að einu sinni þegar fram fór verðmæling Hagstofunnar þá vildi þannig til í þeirri verslun sem verðmælingin var gerð að spænskar gúrkur voru uppseldar. Þetta þýddi að um 500 milljónir króna skiptu um hendur og fóru til lánastofnana sem ella hefðu verið eftir hjá neytendum. En vegna þess að spænsku gúrkurnar voru uppseldar einmitt þennan dag hækkaði gúrkuverð sem hafði þessi áhrif á vísitöluna því þegar við erum komin í svona miklar tölur skiptir hver lítil breyting verulegu máli. Ég bendi á að bara þessi litla breyting þýddi síðan að komin var hækkun á höfuðstól lánanna en síðan þurfti að kippa einhverju öðru meira til baka. Þetta er óeðlilegt og rangt kerfi og ber að afnema það.

Í fyrra þegar þetta mál var flutt og komst til nefndar fékk það umsagnir frá ýmsum aðilum, m.a. þeim, að mínu mati, versta banka sem starfandi er í landinu og heitir Seðlabankinn og ber framar öðrum ábyrgð á því efnahagshruni sem hér hefur orðið en frá bankastjórninni kom eftirfarandi: Að útilokað væri að koma lánakjörum einstaklinga í landinu til sambærilegra viðmiðana og eru á hinum Norðurlöndunum vegna þess að það mundi magna verðbólgu í landinu. Þetta sýnir nú hversu þeir sem þar búa og þar stjórna eru heillum horfnir þegar þeir fjalla um efnahagsmál einstaklinganna í landinu.

Ég vil þakka fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur verið um þessa tillögu okkar til þingsályktunar og mælist til þess, virðulegi forseti, að málinu verði að umræðu lokinni vísað til hv. viðskiptanefndar.