136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

skipan frídaga að vori.

85. mál
[15:36]
Horfa

Flm. (Samúel Örn Erlingsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skipan frídaga á vori. Flutningsmenn með mér eru hv. þingmenn Bjarni Harðarson og Birkir Jón Jónsson.

Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem vinni að undirbúningi lagasetningar um breytta skipan frídaga að vori til hagræðis fyrir almenning og til að auka framleiðni í atvinnulífinu. Nefndin fjalli um eftirfarandi breytingar:

a. að flytja fimmtudagsfrídaga yfir á föstudaginn eftir,

b. að 1. maí verði haldinn hátíðlegur sem frídagur verkamanna, fyrsta mánudag í maí.

Greinargerð með þessari tillögu er svohljóðandi:

Landsmenn eiga allajafna frídag tvo fimmtudaga á hverju vori, þannig að hvorki er frídagur á undan né eftir. Þessir frídagar tveir eru uppstigningardagur og sumardagurinn fyrsti. Sömuleiðis eiga landsmenn frídag 1. maí, þegar hann fellur á virka daga og auðvitað fellur hann þá saman við helgidaga þegar hann fellur á laugardaga og sunnudaga en hann fellur eðli málsins samkvæmt til skiptis á daga vikunnar.

Flestir eru sammála um það að stakir frídagar eru á margan hátt óheppilegir á vinnustöðum. Þeir skapa óhagræði og draga úr framleiðni, og valda að margra mati því að vinnuvikan verður varla nema þrír dagar. Á sama hátt nýtist stakur frídagur launþegum ekki nema að nokkru leyti, með vinnudegi á undan og eftir.

Í mörgum nágrannaríkjum hefur þessari skipan verið breytt og stakir frídagar verið færðir að helgum eða felldir að öðru fríi með ýmsum hætti. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að koma svipuðu á hérlendis, m.a. með framlagningu þingsályktunartillagna á 117. og 132. þingi og þá í tengslum við breytingu á sumartíma o.fl. Aðilar vinnumarkaðar hafa einnig fjallað um þessi mál í tengslum við kjarasamninga, án þess að breytingar hafi orðið, en sagan segir að það hafi a.m.k. í eitt sinn munað litlu. Því er ekki að neita að hér getur verið um tilfinningamál að ræða, sumardagurinn fyrsti markar upphaf sumars samkvæmt gamalli hefð, uppstigningardagur er helgidagur þjóðkirkjunnar og 1. maí hefur bæði sögulega og táknræna þýðingu fyrir verkalýðshreyfinguna. Eðlilegt er þó að ganga beint til þessa verks, en leggja um leið áherslu á gildi þessara daga og það að almenningi sé gert auðveldara að hafa þá í heiðri. Með því er hlúð bæði að framleiðni fyrirtækja sem og samverustundum fjölskyldna í landinu.

Lagt er til að nefnd verði sett til að skoða möguleika á lagasetningu sem lengir helgar fyrir almenning og stuðlar jafnframt að betri nýtingu vinnuvikunnar hjá atvinnurekendum. Það væri til að mynda ákjósanlegur möguleiki að sumardagurinn fyrsti og uppstigningardagur yrðu haldnir hátíðlegir daginn eftir, á föstudegi, og lengdu þannig helgina sem í hönd fer. Á sama hátt yrði vinnuvikan þá samfelldir fjórir dagar og nýttist því betur. Viðbúið er að flutningur frídags vegna uppstigningardags verði viðkvæmt mál þar sem hann er einn af helgidögum þjóðkirkjunnar, en í því sambandi er bent á að samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um helgidagafrið, nr. 32/1997, hefur uppstigningardagur sömu stöðu og almennir sunnudagar og raunar líka eins og annar í páskum, annar í hvítasunnu og fleiri slíkir.

Hvað varðar 1. maí væri t.d. hægt að hafa þann hátt á að hann verði ævinlega haldinn hátíðlegur fyrsta mánudag í maí og lengja þannig helgina. Að sama skapi fengi almenningur aukafrídag þau ár sem 1. maí kæmi upp á laugardegi eða sunnudegi.

Virðulegi forseti. Hér er fyrst og fremst lagt til að nefnd fjalli um það að stakir frídagar að vori verði felldir að helgum. Það á sérstaklega við nú á erfiðum tímum að laga skipan frídaga þannig að örvi framleiðni á vinnustöðum og samverustundir fjölskyldna, hér er því allt að vinna. Vissulega er hér tekið í viðkvæma strengi og snertir bæði trúarvenjur og verkalýðssögu en ég fullyrði að sú skipan sem hér er mælt fyrir geri umrædda daga meiri og betri fyrir almenning allan. Nefndarinnar sem um málið fjallar er síðan að meta hvort of langt er seilst í einhverjum þessara tilfella en hér er vissulega um mál að ræða sem snertir allan almenning og margir hafa lýst skoðun á því að í þessum efnum mætti skipa málum betur en nú er gert.

Ég legg til að þessi tillaga til þingsályktunar fari til umfjöllunar í allsherjarnefnd og svo til síðari umræðu.