136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

skipan frídaga að vori.

85. mál
[15:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Á tímum sem þessum kunna menn að líta á það sem léttara hjal að ræða um frídaga að vori þegar ekki hafa verið leyst þau vandræði sem steðja að þjóðfélaginu. Það er nú reyndar svo að það er kannski einn þátturinn í því að bregðast við þeim vanda sem upp er kominn að halda áfram að ræða það sem menn vilja, halda sér við það að hið daglega líf okkar sé ekki ónýtt, halda áfram að skipuleggja framtíðina og ræða um þá kosti sem okkur bjóðast í ýmsum efnum.

Um leið og ég þakka flutningsmönnum fyrir að gefa tækifæri til þessarar umræðu bæði hér í salnum og í samfélaginu þá bendi ég á að hér er tvennt á ferð í senn, annars vegar er skipulag daglegs lífs, vinnu og frístunda, og hins vegar hefðir og samhengi í samfélaginu, og hvort tveggja er mikilvægt. Það er sjálfsagt að ræða þetta — þó að það verði kannski ekki leyst á þessu þingi eða í þessu nefndarstarfi — vegna þess að þetta rekst stundum á, tímarnir líða, skipulag daglegs lífs breytist og bæði samhengi og hefðir þurfa að semja sig að þeim breytingum og endurnýjast að vissu marki.

Hér er einkum fjallað um þrjá daga, uppstigningardag, sumardaginn fyrsta og 1. maí, það er ekki meira lagt undir, sjálfsagt til þess að gera verkefnið viðráðanlegt. Það er ekki minnst á aðra frídaga að vori sem eru klárlega tveir í viðbót, annars vegar annar í hvítasunnu, sem er auðvitað ekki fimmtudagur, og hins vegar 17. júní, sem er hátíð sem fylgir mánuðinum en ekki dögum vikunnar. Það þýðir auðvitað að tillöguflytjendur hafa með nokkrum hætti gert upp á milli frídaga, telja sem sé 17. júní vera að einhverju leyti óhreyfanlegri eða óviðráðanlegri frídag en 1. maí og að annar í hvítasunnu sé vegna þess að hann er á mánudegi ekki hér til umræðu. Ég vek athygli á þessu og er ekki viss um að þetta sé alveg rétt.

Forsendu þessarar umræðu, sem er auðvitað ekki ný, er lýst ágætlega í greinargerðinni. Hún er annars vegar sú að fólk vilji gjarnan fá lengri frí en áður tíðkaðist, lengra en dag í senn, vilji leggja frí sem eru einn dagur við helgina og fá út úr því þrjá daga, eitthvað því um líkt, væntanlega til t.d. ferðalaga eða dvalar í sumarbústað. Að hinu leytinu er sú forsenda að stakir dagar í viku nýtist ekki vel á vinnustöðum. Fyrir þessu eru auðvitað þau rök sem flutningsmaður nefndi í ræðu sinni og í greinargerðinni. Ég er samt ekki alveg viss um öll þessi rök og bendi t.d. á það með þessi löngu frí að það hafa orðið breytingar á vinnusamfélaginu, m.a. þær að sumarfrí eru hreyfanleg, það er ekki lengur um það að ræða, eins og einu sinni var, að menn þyrftu að taka fríið allt í einu í tilteknum mánuði með löngum fyrirvara, nú er miklu meira um að menn taki það jafnvel í hlutum. Í öðru lagi eru á mjög mörgum vinnustöðum komin vetrarfrí sem menn geta hreyft til, tekið jafnvel frí að vori eða dag í senn. Þetta gefur auðvitað miklu meiri tækifæri fyrir sveigjanleika í frítíma fyrir launafólk.

Það má líka nefna að miklu fleiri en kannski fyrir 20, 30, 40 árum starfa sjálfstætt, eru einyrkjar eða stunda þannig störf að þeir geta skammtað sér frí. Ég held að það sé kannski frekar um það að ræða að þeir fylgi ekki venjulegum reglum um vinnu en hitt er auðvitað til líka.

Að auki má svo nefna að í hina áttina hefur það gerst að frídögum ákveðinna stétta, t.d. verslunarmanna, hefur í raun og veru fækkað, föstum reglulegum frídögum þeirra hefur fækkað. Fólk vinnur um helgar, á helgidögum annarra, þ.e. á þeim frídögum sem til falla í miðri viku og fá það auðvitað með einhverjum hætti bætt upp en þó aðallega í launum frekar en frídögum. Þetta er því á mikilli hreyfingu sem hefur kannski dregið úr þeim rökum sem áður voru fyrir þeim tvenns konar forsendum sem hér eru nefndar.

Auk þessarar mótbáru eða athugasemdar vil ég verja a.m.k. tvo af þeim dögum sem hér eru nefndir. Uppstigningardagur er ekki annar af þeim, ég held að uppstigningardagur sé dagur sem út af fyrir sig væri hægt að hreyfa við þótt ég beri fulla virðingu fyrir kristnum hefðum í þessu efni. Hann hefur frá upphafi ekki verið mjög merkur dagur í kirkjuárinu íslenska, sem er aðeins öðruvísi en önnur kirkjuár, og kannski tilviljun að hann varð frídagur. Um hina dagana tvo er það að nefna að ég tel að þá eigi að verja, annan á þeim forsendum að hann er mjög þjóðlegur dagur, hinn á þeim forsendum að hann er mjög alþjóðlegur dagur. Fyrsti maí er baráttudagur og hátíðisdagur verkalýðs um allan heim. Þau lönd munu vera til, held ég, sem halda hann hátíðlegan á öðrum tíma, Bandaríki Ameríku hafa sérstöðu í því efni, en að öðru leyti er 1. maí nánast um allan hinn siðmenntaða heim haldinn hátíðlegur á þessum degi og eðli hans er þannig að því er erfitt að breyta.

Um sumardaginn fyrsta er hins vegar það að segja að það er eini frídagurinn á Íslandi sem við eigum algjörlega sérstakan. Auðvitað má segja að 17. júní er ekki haldinn hátíðlegur annars staðar og verslunarmannahelgin er íslensk hátíð, en það eru tilefni sem menn þekkja vel í öðrum löndum og eiga með ýmsum hætti, en sumardagurinn fyrsti, hygg ég, að sé ekki haldinn hátíðlegur neins staðar nema þá kannski í Íran og heitir þar nýársdagur. Við búum við hefð í þessu efni sennilega frá því á fyrstu norrænum tímum en Íranar búa hins vegar við enn þá eldri hefð um sitt nýár sem er aftur í persneska fornöld, tíma Daríusar og Xerxesar.

Ég held því að það verði erfitt að hreyfa við þessum dögum og kannski væri nær að reyna að finna aðra daga, hugsanlega einhverja af kirkjudögunum, til þess að leggja við þessa daga, til að búa til samfelldara frí ef menn vilja. Þá vil ég líka bæta því við að ég er ekki alveg jafnviss og flutningsmaður, hv. þm. Samúel Örn Erlingsson, um það að þessir stöku frídagar séu slæmir og að fólk sé mjög áfram um að lengja þau frí sem þannig gefast.

Að lokum vil ég aðeins nefna að það kann að vera að í framtíðinni þurfum við að fara dýpra í þessa umræðu. Hér er að vaxa upp fjölmenningarsamfélag þar sem ekki er víst að menn sætti sig um eilífð við að frídagaskipan Íslendinga miðist við kirkjuár hinnar lútersk-evangelísku þjóðkirkju. Við vitum að erlendis eru víða hræringar á ferð í því efni.

Þess vegna er kannski rétt að rifja hér upp tillögu sem Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur lagði fram, að ég held á áttunda áratugnum. Hún var sú að helgidagar þjóðkirkjunnar yrðu vissulega virtir en með þeim hætti að höfð yrði á þeim eins konar hálf-helgi, menn ynnu þá helgidaga sem ekki eru taldir allra mestir, t.d. á öðrum í páskum og öðrum í hvítasunnu og skírdag jafnvel, en héldu sig til hlés um kvöldið, skemmtanir yrðu takmarkaðar og sýnd full virðing hinum trúuðu og helgidögum þeirra og á sama hátt og við kunnum í framtíðinni að verða að sýna fulla virðingu helgidögum og hátíðum annarra trúflokka en hinna kristnu. Um þetta má hafa lengra mál en þetta sýnir að ekki má fara sér óðslega í þessum efnum og sýna samfélaginu og hinni alþjóðlegu samstöðu fulla virðingu og gæta þess að okkar daglega líf sé skipulagt með reisn og í samhengi við forna tíma og erlenda bræður og systur.