136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

málefni sveitarfélaga.

[13:44]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ekki víst að hægt sé á þessum stutta tíma að svara öllum þeim spurningum sem hv. þingmaður bar fram en ég skal reyna.

Um leið og þessi holskefla gekk yfir í efnahagslífi landsmanna var strax boðað til fundar með sveitarfélögunum. Og um leið og forustumenn þeirra komu frá Brussel af ráðstefnu sem þeir voru þar á var fundað um þessi mál og farið yfir öll þau atriði snúa að ríki og sveitarfélögum. Sett var í gang ákveðin vinna og fleiri samráðsfundir ákveðnir, m.a. var einn haldinn í gær hjá okkur með forustumönnum Sambands sveitarfélaga og sett í gang vinna eins og gagnvart Lánasjóði sveitarfélaga, sem er sem betur fer traustur og öflugur og hefur ekki verið einkavæddur og fór ekki í útrás þannig að hann hefur góða CAD-stöðu, 112 ef ég man rétt, sem ætlaði sér í útboð til lífeyrissjóðanna til að hafa sem lán til sveitarfélaganna. Það var talið eitt af brýnustu verkunum til að framkvæma út af bráðum vanda sveitarfélaga sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu sem hafa þurft að greiða til baka mikið af úthlutuðum lóðum og það með verðbótum sem er reyndar annar þáttur og hefur verið ræddur.

Nú hefur þetta útboð, fyrsti áfangi, átt sér stað og ég er bjartsýnn á að það gangi vel eftir og að sjóðurinn geti gert það sem strax var lagt upp með þrátt fyrir að hafa ekki ákveðna stimplun frá Seðlabankanum sem bankinn gat þó veitt undanþágu frá. Þetta var lagt upp sem fyrsta atriði en auðvitað ræddu forustumenn Sambands ísl. sveitarfélaga önnur atriði sem hv. þingmaður ræddi um eins og fasteignagjaldsprósentuna og aukaframlagið til jöfnunarsjóðs. Ég skal reyna, virðulegi forseti, af því að tíminn er búinn í fyrra svarinu að fara yfir það í seinna svari mínu.