136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

virkjunarframkvæmdir.

[13:54]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki víkja frá þeirri umræðu sem varð hér í upphafi þingfundar á milli hv. þm. Guðna Ágústssonar og hæstv. iðnaðarráðherra um stýrivaxtahækkun, sem er út af fyrir sig frávik frá því sem ég ætlaði að tala um við hæstv. iðnaðarráðherra.

Eftir því sem skilja mátti af orðum hæstv. iðnaðarráðherra þá segir hann: Það var Seðlabanki Íslands einn sem tók þessa ákvörðun — sem gefur þá til kynna, og má gagnálykta út frá því sem þar er sagt, að íslenska ríkisstjórnin hafi ekki komið að þessari ákvörðun um hækkun stýrivaxta frekar en öðrum ákvörðunum Seðlabanka Íslands um hækkun stýrivaxta, og að þetta hafi ekki verið sérstakt skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég vænti þess að hæstv. iðnaðarráðherra geri í framhjáhlaupi hér á eftir grein fyrir því hvort þetta sé réttur skilningur miðað við þau orð sem hann viðhafði við fyrstu fyrirspurninni.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra um áform Landsvirkjunar varðandi Búðarhálsvirkjun og Bjallavirkjun og Tungnaárlón. Vil ég spyrja hann sérstaklega að því hvort hann sé sammála og samþykkur og hafi vilja til þess að þær ráðstafanir og aðgerðir sem Landsvirkjun hefur gripið til, annars vegar varðandi Búðarhálsvirkjun og hins vegar varðandi Bjallavirkjun og Tungnaárlón, og þær hugmyndir sem þar liggja fyrir — hvort hann sé fylgjandi þeim hlutum, leggi áherslu á að þessar virkjanir geti komist á framkvæmdastig sem allra fyrst og hver hans viðhorf eru að öðru leyti til þeirra mála.