136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

virkjunarframkvæmdir.

[13:55]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég hef eins og aðrir þingmenn stutt Búðarhálsvirkjun og eins og hv. þingmaður veit er búið að bjóða hana út. Við Íslendingar höfum hins vegar lent í fjárhagslegum hremmingum og það á eftir að koma í ljós með hvaða hætti Landsvirkjun og íslenska ríkinu tekst við þær aðstæður að afla fjármagns til þess að hrinda framkvæmdinni af stað. Það er einfaldlega, svo að ég sé alveg ærlegur, ekki alveg ljóst á þessari stundu.

Að því er varðar aðrar framkvæmdir sem hv. þingmaður nefndi, Bjallavirkjun og ákveðnar framkvæmdir sem tengjast Tungnaá, þá er það, eins og áður hefur komið fram, eitt af því sem verður skoðað í þeim hópi sem vinnur nú að rammaáætlun. Það er alveg ljóst, eins og ég hef sagt, að ekki er verið að víkja frá neinum reglum eða lögum að því er varðar ýmsar þær framkvæmdir sem tengjast hugsanlegum virkjunum og stóriðjuframkvæmdum. Þetta fer í þann farveg og verður unnið þar og engin sérstök flýtiafgreiðsla kemur til af minni hálfu ef hv. þingmaður er að spyrja um það. Ef hann er að velta fyrir sér rannsóknarleyfum og öðru slíku liggur það fyrir að að því er varðar óröskuð svæði mun ég ekki veita nein rannsóknarleyfi fyrr en þessari vinnu er lokið.

Nú vill svo til að sá vinnuhópur hefur boðað til sérstaks opinbers fundar til þess að ræða framvindu þess verks og þar munu væntanlega koma fram spurningar um þessa þætti og þeim verður svarað þar. Af minni hálfu liggur það ljóst fyrir að ég hyggst ekki veita rannsóknarleyfi á svæðum sem eru ósnortin og ekki var búið að veita leyfi til áður en þessi ríkisstjórn tók til starfa. Það er reyndar afstaða sem hefur mörgum sinnum komið fram hér og ég held að ég hafi svarað hluta af þeirri spurningu áður úr þessum stóli.