136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

áfengisauglýsingar og viðbrögð við dómi Hæstaréttar.

[14:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég get í raun endurtekið það sem ég sagði áðan: Ég tel að þessi dómur marki ákveðin þáttaskil í allri meðferð þessara mála og nú liggi fyrir alveg skýr niðurstaða hjá Hæstarétti um hvernig túlka eigi 20. gr. áfengislaganna. Ég hef sagt það áður á þingi þegar menn hafa verið að ræða þessi mál að ég æskti þess mjög að fá slíka niðurstöðu að menn vissu hvar þeir stæðu varðandi túlkun á 20. gr. áfengislaganna.

Hæstiréttur á síðasta orðið um það hvernig þessi grein er túlkuð. Það er alveg skýr meiri hluti fyrir því og ég held að ákæruvaldið og allir sem um þessi mál fjalla verði að taka mið af þessari niðurstöðu. Það liggur því fyrir og það eru hin merku tímamót með dómnum. Menn hafa beðið eftir honum til þess að skýr svör um álit þess sem á síðasta orðið um inntak í lögum. Það mun þá hafa fordæmisgildi í framtíðinni og tekur af mikla óvissu í þessu máli sem m.a. er lýst í þeim gögnum sem hv. þingmaður nefndi. Hæstiréttur tekur í dómi sínum, ef ég man rétt, afstöðu til jafnræðis og hvernig því er háttað og ég hvet þingmenn til að lesa dóminn.

Síðan liggur einnig fyrir þinginu tillaga til breytinga á reglum um auglýsingar á áfengi og það er eitthvað sem þingmenn hljóta að taka afstöðu til eins og annarra mála sem eru lögð fyrir. En ég tel að túlkunin á 20. gr. áfengislaganna sé mjög skýr og ótvíræð eftir dóm Hæstaréttar.