136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

sóknargjöld.

7. mál
[14:26]
Horfa

Flm. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987. Flutningsmaður auk þeirrar sem hér talar er hv. þm. Gunnar Svavarsson.

Frumvarpið er tvær greinar og fyrri greinin er í þá veru að lagt er til að 5. gr. laga um sóknargjöld orðist svo:

„Auk gjalds skv. 2. gr. ber ríkissjóði að skila af tekjuskatti gjaldi er nemur 18,5% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga skv. 2. og 3. gr. í sjóð er nefnist Jöfnunarsjóður sókna. Gjald þetta greiðist mánaðarlega.“

2. gr. fjallar um að lögin taki gildi þegar í stað.

Samkvæmt núgildandi lögum er starfsemi skráðra trúfélaga fjármögnuð með sóknargjöldum sem er ákveðin prósenta af útsvarsstofni. Þjóðkirkjan á hinn bóginn er fjármögnuð í fyrsta lagi með framlagi úr ríkissjóði samkvæmt sérstökum samningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, í öðru lagi með sóknargjöldum með sömu viðmiðum og til skráðra trúfélaga, í þriðja lagi með framlagi til Jöfnunarsjóðs sókna sem er 18,5% álag ofan á sóknargjöld og í fjórða lagi ber ríkissjóði að skila kirkjumálasjóði árlega af tekjuskatti sem nemur 11,3% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld.

Með því frumvarpi sem hér er mælt fyrir er lögð til sú breyting að skráð trúfélög hafi aðgang að Jöfnunarsjóði sókna til jafns við þjóðkirkjuna og að ríkissjóður greiði sama hlutfall af sóknargjöldum í sjóðinn vegna þeirra sem eru í skráðum trúfélögum samkvæmt lögum þar um. Þessi breyting felur í sér kostnaðaraukningu sem nemur milli 50 og 60 millj. kr. fyrir ríkissjóð.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.:

Núgildandi lög um sóknargjöld voru sett árið 1987 á 110. löggjafarþingi og tóku þau gildi í ársbyrjun 1988. Fram til þess tíma voru sóknargjöld innheimt af hverjum einstaklingi yfir 16 ára aldri sem nefskattur, sem ríkið stóð skil á gagnvart þjóðkirkjunni, trúfélögum og Háskólasjóði og þáði ríkið þóknun fyrir með innheimtugjaldi. Sóknargjald hafði viðmiðun í útsvari og var 0,2–0,4% en sóknir höfðu heimild til að hækka viðmiðunina í allt að 0,8% með samþykki dóms- og kirkjumálaráðherra við sérstakar aðstæður, t.d. þegar sóknir stóðu í fjárfrekum framkvæmdum.

Eftir því sem ég kemst næst náði þessi heimild til hækkunar sóknargjalda jafnt til þjóðkirkjunnar og skráðra trúfélaga.

Breytingin sem varð með gildistöku laganna í ársbyrjun 1988 fól í sér að sóknargjaldið var fellt inn í tekjuskattinn, ásamt ýmsum öðrum sköttum eins og t.d. sjúkratryggingagjaldi, kirkjugarðsgjaldi og fleiri álíka sköttum. Meginbreytingin varð því sú að í stað þess að gjaldendur greiddu beint til sinna sókna var ákveðið að þjóðkirkjusöfnuðir, trúfélög og Háskóli Íslands, vegna þeirra manna sem standa utan trúfélaga, fengju hlutdeild í hinum nýja sameinaða tekjuskatti. Þessi hlutdeild var útreiknuð og ákveðin með hliðsjón af upphæð álagðra sóknargjalda á árinu 1987. Var upphæðin miðuð við hinar venjulegu álagningarheimildir þágildandi laga um sóknargjöld, þegar búið var að draga frá þá fjárhæð sem sóknir gátu nýtt sér gegnum sérstaka álagningarheimild, sem gat farið í allt að 0,8% samkvæmt sérstöku leyfi dóms- og kirkjumálaráðherra, eins og ég greindi frá hér á undan. Var þar fundin ákveðin grunntala sem notuð var til þess að ákveða hlutdeild sókna, trúfélaga og Háskólasjóðs í tekjuskattinum til frambúðar. Gjaldið skyldi síðan fylgja sjálfkrafa breytingum sem kynnu að verða á fjölda þeirra manna sem náð hafa 16 ára aldri og tilheyra hverjum söfnuði. Auk þess var gert ráð fyrir að gjaldið fylgdi þeim breytingum sem yrðu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga tveggja síðustu ára á undan gjaldári. Í þessu fyrirkomulagi fólst ákveðinn jöfnuður, þar sem söfnuðir sem höfðu lægri meðaltekjur á mann fengu hærri tekjur en samkvæmt eldra fyrirkomulagi og öfugt. Hið nýja fyrirkomulag hafði í för með sér að í stað þess að hver og einn einstaklingur greiddi ákveðinn nefskatt til safnaðar síns er sóknargjaldið greitt úr ríkissjóði í samræmi við fjölda þeirra sem skráðir eru í viðkomandi sókn eða trúfélag. Sóknargjaldið er því í raun fjármagnað af almennum skatttekjum, þar sem það kemur úr ríkissjóði, en upphæðin tekur breytingum eftir launavísitölu. Því til áréttingar má benda á að ríkissjóður tekur ekki lengur gjald vegna innheimtu sóknargjalda eins og gert var við fyrra fyrirkomulag.

Samhliða breytingum á ákvæðum um sóknargjöld var tekin ákvörðun um að setja á laggirnar Jöfnunarsjóð sókna. Í greinargerð með frumvarpi til laga um sóknargjöld frá árinu 1987 segir m.a. um hlutverk sjóðsins að honum sé „ætlað að mæta fjárþörf þeirra sókna er annars mundu nota núverandi heimildir skv. 3. gr. laga um sóknargjöld um sérstaka hækkun sóknargjaldsins“. Var þar vísað til heimildargreinar um hækkun sóknargjalds „fyrir hvert ár allt að helmingi og miða það við 0,80% af útsvarsstofni“. Jafnframt var gert ráð fyrir að sjóðurinn skyldi styrkja fámennar og fátækar sóknir, að auðvelda stofnun sóknar þar sem byggð er að breytast og að styrkja kirkjulega, félagslega og menningarlega starfsemi á vegum safnaðanna, svo og ýmis kirkjuleg verkefni sem höfðu áður fengið fjárframlög úr ríkissjóði. Þá var hinum nýja Jöfnunarsjóði sókna ætlað að standa að hluta til undir rekstri og viðhaldi kirkna sem kallaðar hafa verið landskirkjur, þótt ekki hafi verið ætlast til að felldur yrði niður stuðningur ríkissjóðs við sérstaklega fjárfrekar framkvæmdir og nefndar til sögunnar Hallgrímskirkja og Hóladómkirkja. Tekið var fram í greinargerð með frumvarpinu að fjárhæðir sem lagðar voru til grundvallar viðmiðunarhlutfalli í Jöfnunarsjóð sókna með hliðsjón af sóknargjaldi væru eingöngu vegna þjóðkirkjuverkefna. Stjórn Jöfnunarsjóðs sókna er samkvæmt lögum um sóknargjöld falin kirkjuráði, en reikningshald er hjá biskupsstofu.

Eins og ég greindi frá hér á undan er rekstur þjóðkirkjunnar fjármagnaður úr fjórum áttum:

Í fyrsta lagi af fjárlögum samkvæmt samningi sem gerður hefur verið við þjóðkirkjuna. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir 1,6 milljörðum kr. til þjóðkirkjunnar. Þetta fjármagn stendur m.a. undir launum presta þjóðkirkjunnar, vígslubiskupa, biskups og starfsmanna á biskupsstofu og rekstri biskupsstofu, embættiskostnaði presta, ýmsum sérverkefnum þjóðkirkjunnar, rekstri prestssetra og söngmálastjóra þjóðkirkjunnar auk annars.

Í öðru lagi er reksturinn fjármagnaður með sóknargjaldi, sem samkvæmt frumvarpi til fjárlaga nemur um 2,5 milljörðum kr., þar sem um 80% þess falla til þjóðkirkjunnar eða um 2 milljarðar kr. Sóknargjald dreifist á kirkjur landsins eftir fjölda þeirra sem skráðir eru í söfnuð og stendur undir rekstrarkostnaði, svo sem launum annarra starfsmanna kirkjunnar, kirkjustarfi og rekstri og byggingu sjálfrar sóknarkirkjunnar.

Í þriðja lagi hefur þjóðkirkjan aðgang að Jöfnunarsjóði sókna, en til hans munu renna á árinu 2009 samkvæmt frumvarpi til fjárlaga um 417 millj. kr. Gjald í þann sjóð er 18,5% álag ofan á sóknargjöld, framlag ríkisins vegna þeirra sem eru í þjóðkirkjunni. Jöfnunarsjóðurinn er notaður til að veita styrki m.a. til bygginga og viðhalds kirkna, auk þess til að jafna aðstöðu milli safnaða innan þjóðkirkjunnar.

Að lokum ber ríkissjóði að skila kirkjumálasjóði árlega af tekjuskatti sem nemur 11,3% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld, samanber lög um kirkjumálasjóð, nr. 138/1993, og samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009 falla um 324 millj. kr. þar til. Kirkjumálasjóður er notaður til að fjármagna prestssetrasjóð, auk þess að standa straum af kostnaði við kirkjuþing, kirkjuráð og prestastefnu, biskupsgarð, ráðgjöf í fjölskyldumálum (fjölskylduþjónustu kirkjunnar), söngmálastjórn og tónlistarfræðslu á vegum þjóðkirkjunnar, starfsþjálfun guðfræðikandídata og önnur verkefni samkvæmt ákvörðun kirkjuráðs. Þannig leggur ríkið í raun til aukaframlög til þjóðkirkjusafnaða umfram sóknargjöld sem nema 29,8% í heild.

Rekstur annarra skráðra trúfélaga er hins vegar eingöngu fjármagnaður af sóknargjöldum, nema í þeim tilvikum sem safnaðarmeðlimir sjálfir leggja til fjármagn eða með öðrum utanaðkomandi stuðningi.

Sóknargjöld annarra trúfélaga utan þjóðkirkjunnar standa þannig undir launum presta og annarra starfsmanna trúfélags, annarri safnaðarstarfsemi, viðhaldi og endurbyggingu kirkju og aðstöðu fyrir söfnuðinn, t.d. safnaðarheimilis. Mikið fjárhagslegt ójafnræði er því milli stöðu safnaða innan þjóðkirkjunnar annars vegar og skráðra trúfélaga hins vegar. Má þar m.a. nefna stöðu fríkirkna hér á landi, en það eru fjölmennar sóknir sem byggja á sömu evangelísku trúarsetningu og þjóðkirkjan, prestar þeirra stunda nám sitt við guðfræðideildir t.d. hér á landi og eru vígðir til starfa af biskupi Íslands.

Að öllu samanlögðu nemur fjármagn sem ríkissjóður greiðir vegna hvers einstaklings sem skráður er utan þjóðkirkjunnar um það bil helmingi þeirrar upphæðar sem ríkissjóður leggur til vegna hvers einstaklings sem skráður er í þjóðkirkjuna.

Hér á landi ríkir trúfrelsi. Þjóðkirkjan hefur sérstöðu meðal trúfélaga hér á landi, m.a. í ljósi sögunnar. Samkomulag er í gildi milli ríkisins og þjóðkirkjunnar um fjárhagsleg málefni sem byggist á sterkum grunni. Þessu frumvarpi er ekki ætlað að hrófla við þessu fyrirkomulagi. Hins vegar er með frumvarpi þessu lagt til að styðja frekar við önnur skráð trúfélög hér á landi með því að gefa þeim hlutdeild í Jöfnunarsjóði sókna með sama hætti og gildir um söfnuði þjóðkirkjunnar til að styðja við kirkjulegt starf og ekki síður til að veita styrki til uppbyggingar og endurbóta í aðstöðu trúfélaga.

Með vísan í röksemdir hér á undan — þegar sóknargjaldið var lagt niður með fyrra fyrirkomulagi, þar sem söfnuðir höfðu heimild til þess að hækka allt upp í 0,8%, þá átti það við önnur skráð trúfélög en þjóðkirkjuna jafnt sem kirkjusóknir innan þjóðkirkjunnar. Þannig má segja að skráð trúfélög hafi misst þá heimild til þess að auka tekjur sínar tímabundið til þess að standa undir t.d. byggingu kirkna, safnaðarheimila eða slíku.

Óumdeilt er að trúarlegir söfnuðir, burt séð frá trúarhugmyndum, eru ákveðin kjölfesta í samfélaginu og veita stuðning og styrk til einstaklinga og fjölskyldna óháð samfélagslegri stöðu, langt umfram það trúarstarf sem er grundvöllur starfsemi þeirra. Í flestum tilvikum eru gerðar sambærilegar kröfur til skráðra safnaða og til safnaða þjóðkirkjunnar um þjónustu. Í því sambandi er nærtækt að benda á fríkirkjusöfnuðina sem byggja á sömu evangelísku trúarsetningu og þjóðkirkjan, en fjárhagsleg staða er gjörólík, eins og bent hefur verið á.

Virðulegi forseti. Hlutfall þeirra sem eru skráðir í þjóðkirkjuna hefur farið lækkandi á síðustu árum. Árið 1987 voru um 93,5% þeirra sem álögð sóknargjöld náðu til skráðir í þjóðkirkjuna, en árið 2007 — eða 20 árum seinna — hafði þetta hlutfall lækkað í 80,7%. Milli áranna 1990 og 2007 er mesta fjölgunin í hópi þeirra sem eru skráðir í önnur trúfélög eða ótilgreindir, en þeir fóru úr 0,6% í 6,2% á þessu tímabili, og hlutfall þeirra sem eru utan trúfélaga fór úr 1,32% í 2,8%.

Þetta er allt saman samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Skráðum trúfélögum hefur fjölgað mjög mikið á tímabilinu 1990–2007 eða úr 14 í 30. Mikil fjölgun hefur verið í kaþólska söfnuðinum, Fríkirkjunni í Hafnarfirði og Reykjavík og Óháða söfnuðinum. Má benda á í þessu sambandi að í núverandi skipulagi felst að hver einstaklingur sem skráir sig úr þjóðkirkjunni felur í sér sparnað fyrir ríkissjóð sem nemur framlagi í Jöfnunarsjóð sókna, sem er 18,5% af sóknargjaldi, og kirkjumálasjóð, sem nemur um 11,8% af sóknargjaldi, samtals um 30% af sóknargjaldi.

Við vinnslu frumvarpsins kom til álita að breyta samsetningu stjórnar Jöfnunarsjóðs sókna í samræmi við það að fleiri trúfélög en þjóðkirkjan hefðu aðgang að sjóðnum. Niðurstaða flutningsmanna var í þá veru að beina því til hv. allsherjarnefndar að taka það til skoðunar með hliðsjón af umsögnum þeirra skráðu trúfélaga sem málið varðar.

Að lokum, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til allsherjarnefndar að lokinni 1. umr.