136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

8. mál
[14:52]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er komin til umræðu tillaga til þingsályktunar um hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu og hefur 1. flutningsmaður hennar, hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, flutt sína ræðu. Í þingsályktunartillögunni segir m.a. að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa að hreyfing geti orðið valkostur í heilbrigðisþjónustu, sem lækning og í fyrirbyggjandi tilgangi, þannig að læknar geti vísað á hreyfingu sem meðferð við sjúkdómum á sama hátt og vísað er á lyf eða læknisaðgerðir. Nefndin kanni kostnað og ávinning af fyrirkomulaginu. Hún meti hvort gera þurfi breytingar á lögum til að ná þessu markmiði og hvort setja þurfi á laggirnar nám eða endurmenntun fyrir þá sem hafa umsjón með hreyfingar-, lífsstíls- eða þjálfunaráætlunum. Síðan er kveðið á um skipan nefndarinnar og hverjir mundu skipa þá nefnd, sjö manna nefnd.

Þessi þingsályktunartillaga kom til heilbrigðisnefndar á síðasta ári og hefur reyndar komið þangað áður. Nefndin kallaði til fjölda umsagnaraðila til að fjalla um málið og gefa okkur yfirsýn yfir hvernig því væri varið. Almennt má segja að þeir aðilar sem komu til nefndarinnar hafi talað jákvætt um tillöguna og talið hana vera til bóta. Meðal annars vísaði Lýðheilsustöð í umsögn sinni til reynslu Svía, Dana og Norðmanna sem benda á að útgáfa hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu sé góð leið til að stuðla að aukinni hreyfingu og bættu heilsufari þeirra sem þurfa á slíkum stuðningi að halda. Jafnframt komu fram þau sjónarmið hjá umsagnaraðilum bæði bréflega og hjá þeim sem við kölluðum á okkar fund að ef til vill væri ekki þörf á að þjálfa sérstaka fagstétt til að takast á við þetta verkefni. Til væru íþróttaþjálfarar og sjúkraþjálfarar og slíkir aðilar, íþróttafræðingar, íþróttakennarar, sem gætu tekist á við þetta verkefni án þess að vera sérstaklega menntaðir í þessa veru og í dag væri starfandi fjöldi aðila sem kæmi að þjálfun einstaklinga með sjúkdóma. Hins vegar töldu flestir að ávinningurinn væri mikill. Félag íslenskra sjúkraþjálfara sagði okkur frá því, bæði í nefndinni og í bréflegri umsögn sinni, að félagið hefði lagt í töluvert mikla vinnu til að kynna sér þetta mál og telji að ávinningur af þessu kerfi sé augljós ef horft sé til bæði meðferðar og forvarnagildis hreyfingar. Félagið bendir jafnframt á að það sé byggt á vísindalega gagnreyndum rannsóknum um áhrif hreyfingar og segir að áætla megi að ávinningurinn sé bætt lífsgæði einstaklinga og jafnvel lækkun lyfjakostnaðar sem gæti síðan leitt til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu.

Það er engum blöðum um það að fletta að hreyfing er til góðs hvernig sem líkamlegt ástand fólks er, hvort sem það er gott eða slæmt. Í gegnum tíðina hafa læknar ávísað á hreyfingu eða á bætt mataræði en þó ekki með þeim hætti sem hreyfiseðill gerir ráð fyrir, þ.e. skriflega. Það er dálítið athyglisvert að í gögnum sem ég hef komist yfir frá dönskum heilbrigðisyfirvöldum er hreinlega sagt að helsti ávinningurinn við að skrifa sérstaklega út seðil til hreyfingar sé sá að sjúklingar vænta þess að fá einhvern seðil í hendur þegar þeir koma til læknis til að fá úrræði vegna sjúkdóma sinna eða einkenna vegna sjúkdóma eða einhvers líkamlegs ástands. Og þar er sagt að seðillinn sé nefnilega ávísun eða sönnun þess að læknirinn vilji gera eitthvað með þann sjúkdóm sem sjúklingarnir koma út af til hans. Það er vitað mál að í mörgum tilvikum er besta meðferðin bætt mataræði og aukin hreyfing og hægt er að takast á við mjög marga sjúkdóma með reglulegri hreyfingu og bættu mataræði, m.a. hina klassísku menningarsjúkdóma sem við burðumst nú með, hátt kólesteról, ofþyngd, háþrýsting, sykursýki, þ.e. sykursýki af tegund 2, hjartasjúkdóma og m.a. geta bjúgur og lungnasjúkdómar líka skánað með hreyfingu. Svo er náttúrlega þekkt að hreyfing er mjög góð meðferð við kvíða og þunglyndi. Við hreyfingu losast endorfín, náttúrulegt morfín í líkamanum sem gerir það að verkum að fólki líður betur, það veldur vellíðan.

Það er engin spurning að hreyfing er eftirsóknarverð til að bæta líkamlegt og andlegt ástand. Það sem vekur mann hins vegar til töluverðrar umhugsunar er af hverju þetta ráð er ekki gefið í ríkara mæli — ég er reyndar ekki í vafa um að þessi ráð eru gefin af heilbrigðisstarfsfólki — og hvers vegna fólk fylgir ekki ráðgjöf af þessu tagi. Þá er spurningin hvort einhvers konar formlegt bevís eins og Danir segja, formlegt plagg um það að fólk eigi að gera eitthvað ákveðið, sé betra en munnleg fyrirmæli. Það er kannski tilraunarinnar virði að skoða það. Eins og kom fram hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur hefur þetta verið prófað hjá heilsugæslunni í Garðabæ og þetta er ekki bara ávísun út í loftið heldur í samvinnu við heilsuræktarstöðvar eða sjúkraþjálfara og sveitarfélagið hefur komið þar að. Þetta er ekki bara einn farvegur, ein ávísun send út í loftið heldur er fólki leiðbeint með áframhaldið. Það er alveg ljóst að þetta ber ákveðinn árangur en þá spyr maður sig líka hvort verið sé að opna þarna á einhverja útgjaldaleið sem þarf kannski að velta fyrir sér hvort við viljum fara eða hvort við vísum þessu á ábyrgð fólksins, þ.e. að fylgja þessum hreyfiseðli hvort sem það fær niðurgreiðslu frá ríkinu eða ekki. Það er því í ýmis horn að líta varðandi þessa tillögu sem er hin ágætasta.

Að lokum vildi ég aðeins vísa í það að ég rakst á rannsókn frá Svíþjóð þar sem sagt er frá árangri slíkrar meðferðar. Það var rannsókn sem Lone Kelling, doktorsnemi við Karolinska sjúkrahúsið, gerði. Hún skoðaði 300 sjúklinga sem flestir voru á sextugsaldri og fengu hreyfiseðla á 13 ólíkum stöðum. Hreyfiseðillinn var yfirleitt vegna ofþyngdar, verkja eða stoðkerfisvanda í hrygg eða hálsi. Af þessum 300 sjúklingum hafði um þriðjungur eða 100 manns alls ekkert hreyft sig svo neinu næmi en sex mánuðum seinna hafði þetta hlutfall farið niður í 16%. Árangurinn var þó ekki meiri en það að þriðjungurinn sem hafði ekkert hreyft sig var kominn í 16% og hafði fækkað um helming. Hins vegar var alveg ljóst að fólkið lýsti aukinni vellíðan bæði líkamlegri og andlegri þannig að það er eins og ég sagði tilraunarinnar virði að fara þessa leið.

Í sjálfu sér furða ég mig svolítið á því að það skuli þurfa fyrirmæli ofan frá, frá Alþingi eða heilbrigðisyfirvöldum, til að koma slíku kerfi á og að árangursríkum meðferðum sem heilbrigðisstarfsmenn þekkja og vita að skipta máli skuli ekki vera beitt í meira mæli án þess að þurfa að setja það í einhvern slíkan formlegan farveg. Að mínu mati á heilbrigðisstarfsfólk sem hefur þekkingu á þessum málum að geta leiðbeint fólki, með sama hætti og það ávísar á lyf, um að fara að hreyfa sig í meira mæli með þeim röksemdum að það muni leiða til betri líðanar.

Þetta eru í stuttu máli sjónarmið mín varðandi þessa ágætu þingsályktunartillögu. Það var eitt atriði í viðbót sem ég vildi nefna en í dag fá læknar ekki greitt sérstaklega fyrir lyfseðla þannig að það væri í raun og veru engin þörf á að greiða frekar fyrir hreyfiseðla.