136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

8. mál
[15:04]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir röksemdir hv. þingmanns í þá veru að það er eins og það séu einhver meiri formlegheit í kringum það ef fólk fær ávísun á ákveðna aðferð eða meðferð í hendurnar. Ég legg þá áherslu á það í þessu samhengi að hreyfiseðilinn er ávísun á tiltekna meðferð þannig að fólk á að fylgja ákveðnu „prógrammi“. Varðandi lyf og meðferðarheldni — þ.e. hvort fólk tekur lyf eftir ráðleggingum — hefur það sýnt sig að um það bil 50% þeirra sem taka blóðþrýstingslyf taka ekki lyfin. Ef fólk fer hins vegar í ákveðna meðferð þar sem um er að ræða ákveðna eftirfylgni, því er fylgt eftir að fólk fái stuðning til að taka lyfin sín með því að hringt er í það eða það þarf að kvitta fyrir eða eitthvað í þá veru, tekur það lyfin frekar. Það er gríðarlega mikil sóun á lyfjum þegar fólk fer ekki eftir þeim ráðleggingum sem það fær á lyfseðli. Í Garðabæ hefur fólk farið í ákveðnar meðferðir sem eru samvinnuverkefni milli sveitarfélagsins og heilsugæslunnar. Ég held að setja þurfi upp tilteknar meðferðir fyrir ákveðna hópa fólks. Fólk með ákveðna sjúkdóma fer í meðferð sem er sérsmíðuð fyrir það.

Ég set mig því alls ekki upp á móti þessu en ég er dálítið vonsvikin yfir því að heilbrigðisstofnun skuli ekki taka þetta upp án þess að þurfa að fá hvatningu utan frá því að þar liggur þekkingin á meðulunum.