136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

8. mál
[15:16]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu. Ég vil byrja á því að þakka og fagna þrautseigju flutningsmanna tillögunnar og þá sérstaklega 1. flutningsmanns, hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, því að tillagan er hér flutt í fimmta sinn. Oft var þörf en nú er nauðsyn eins og bent hefur verið á.

Í rauninni er verið að leggja til mjög lítið skref. Það er verið að leggja til að sett verði á laggirnar nefnd — það eru öll ósköpin — til að kanna kostnað og fyrirkomulag af þeirri kerfisbreytingu að læknum sé heimilt að ávísa á hreyfingu rétt eins og lyf og læknismeðferð. Það er mikilvægt að þessi tillaga verði samþykkt og fái stuðning í heilbrigðisnefnd, bæði með tilliti til góðrar reynslu, sem er rakin í greinargerð, og líka með tilliti til þeirrar almennu skynsemi sem er byggð á þekkingu sem flestir búa yfir um þessar mundir, sem sagt að hreyfing sé kannski ekki allra meina bót en flestra meina bót.

Það er líka mikilvægt að þessi tillaga fáist samþykkt með tilliti til laga um réttindi sjúklinga en samkvæmt lögum þar um eiga sjúklingar rétt á sem fullkomnastri heilbrigðisþjónustu og upplýsingum um önnur úrræði en fyrirhugaða læknismeðferð. Samkvæmt þeim lögum eiga menn líka rétt á því að hafna meðferð og væri æskilegt að skýrar væri kveðið á um að menn mættu velja meðferð. Er ég þar að vísa til óhefðbundinna lækninga ýmiss konar sem margir eru farnir að notfæra sér hér á landi, bæði til að bæta lífsgæði almennt og einnig til þess að ná heilsu til baka. Það er mikilvægt að hvetja menn til að taka virkan þátt í að bæta heilsu sína og til að halda henni, sem sagt að taka ábyrgð á eigin heilbrigði. Fátt er betra í því en hreyfing, eins og við vitum, en það er fleira sem mætti nefna eins og komið hefur fram í þessari umræðu, bæði mataræði, ýmsa þjónustu sem græðarar, sjúkraþjálfarar og hómópatar veita fólki, m.a. með nuddi og nálarstungum, og síðan er það skipulögð þjálfun í kraftgöngu, sundi eða á líkamsræktarstöðvum eins og bent hefur verið á.

Ég tel ástæðu til að minna á nauðsyn þess að óhefðbundnar lækningar fái viðurkenningu í heilbrigðisþjónustu okkar og sérstaklega hvatning til að breyta líferni og bæta mataræði og hreyfingu. Það er mikilvægt að við leggjum meiri áherslu á þessa hluti en verið hefur og meiri áherslu en á lyf og læknisaðgerðir.

Spurt var hér áðan — hv. formaður heilbrigðisnefndar lýsti vonbrigðum sínum yfir því — af hverju tillaga sem þessi, um að taka upp jafnsjálfsagðan hlut og hreyfiseðla eða ávísun á hreyfingu í læknismeðferð, þyrfti að koma ofan frá, af hverju það þyrfti að koma frá hv. Alþingi. Í mínum huga er svarið tvíþætt. Annars vegar er það staðreynd að heilbrigðisstarfsmenn eru menntaðir í lyfjagjöf og læknisaðgerðum frekar en því að ráðleggja um mataræði, hreyfingu eða lífsstíl. Það er einfaldlega þannig. Ég held því miður að kennsla við læknadeildina okkar sé kannski ekki nógu góð á þessu sviði því að hér á landi hafa læknar lagt minni áherslu á þessa hluti en læknar í nágrannalöndunum. Þar er hefðin fyrir óhefðbundnum lækningum mun ríkari og eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni hafa hreyfiseðlar jafnvel verið notaðir á Norðurlöndunum um nokkurra ára skeið.

Annað atriði sem ég vil nefna sem svar við því af hverju slík kerfisbreyting þarf að koma ofan frá er að það er dýrt að hreyfa sig skipulega í þessu landi. Við skulum muna að það kostar áreiðanlega 5–15 þús. kr. á mánuði að sækja líkamsræktarstöðvar í þéttbýlinu. Það segir sig sjálft að frístundakortið sem Reykjavíkurborg hefur tekið upp er skref í rétta átt, og í þá átt sem þessi tillaga til þingsályktunar varðar. Þar veitir borgin 24 þús. kr. styrk á ári í tvennu lagi til ungmenna til að fara í frístundir sem í flestum tilfellum er hreyfing. Auðvitað eru dæmi um annað en oftast kaupa börnin sér rétt til þátttöku í æfingum hjá íþróttafélögunum. Styrkurinn frá Reykjavíkurborg er þó ekki nema helmingurinn af raunkostnaði sem fjölskyldan þarf að reiða fram til að borga þátttökugjaldið í íþróttunum, í félaginu, að ekki sé talað um búninga, keppnisferðir og allt annað. Við höfum ekki lagt næga áherslu á hreyfingu í skólunum og við byggingu framhaldsskóla hefur íþróttahúsið oftar en ekki verið síðast á dagskránni.

Herra forseti. Það lítur út fyrir að við Íslendingar fáum ekki aðeins tækifæri til breyttra lífshátta í framtíðinni heldur verðum við tilneydd til þess. Með því m.a. að draga úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti notum við bílana minna og þá fjölgar gönguferðum og hjólreiðum og hreyfing eykst, það er auðvitað af því góða. Við höfum ekki haft úrræði til að hvetja fólk til hreyfingar eftir að það hefur veikst eða orðið fyrir slysi á annan hátt en þann að veita ávísun til sjúkraþjálfunar í tiltekinn fjölda skipta eða þá að leggja menn inn á Reykjalund eða heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði til þess að ná heilsu með þessu móti. Það hefur sýnt sig að hreyfing er bæði árangursrík sem forvörn og sem meðferð við sjúkdómum sem hér hafa verið taldir upp. Ég tel því að ekki sé eftir neinu að bíða að hv. heilbrigðisnefnd taki tillöguna til afgreiðslu enda mun ekki mikið liggja fyrir nefndinni um þessar mundir.