136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

8. mál
[15:24]
Horfa

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa tekið til máls í þessari umræðu fyrir góðar undirtektir. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi óhefðbundnar lækningar og tek ég undir þau orð. Ég vil halda því til haga að heilbrigðisnefnd tók fyrir þingmál um óhefðbundnar lækningar á síðasta kjörtímabili og afgreiddi það. Óhefðbundnar lækningar höfðu ekki verið mikið ræddar á Alþingi fyrir þann tíma og skal ekki gert lítið úr þeim leiðum til að bæta heilsu sína og ná heilsu. Eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi er dýrt að hreyfa sig hefðbundið, það er dýrt að sækja líkamsræktarstöðvar o.s.frv. Þegar harðnar í ári þá er það oft það fyrsta sem fólk sparar við sig sem því miður ætti ekki að vera, það er aldrei mikilvægara en einmitt þá að hreyfa sig. En þetta hefur allt komið fram í umræðunni sem ég þakka kærlega fyrir og ég vonast til þess að hún verði til þess að þessi mál verði samþykkt. Það er ekki verið að fara fram á mikið. Verið er að leggja til að það verði fært í farveg að vísa á hreyfingu og hollt mataræði með hreyfiseðlum, samanber lyfseðla, það er ekki stórt mál, og að nefnd vinni það verk sem hér er lagt til.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málið fari til 2. umr. og hv. heilbrigðis- og trygginganefndar að lokinni þessari umræðu.