136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

málsvari fyrir aldraða.

18. mál
[15:27]
Horfa

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um málsvara fyrir aldraða, 18. mál á þskj. 18. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Katrín Júlíusdóttir, Guðbjartur Hannesson, Árni Páll Árnason og Ellert B. Schram.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela félags- og tryggingamálaráðherra að beita sér fyrir því að komið verði á þjónustu sem sinni gæslu hagsmuna og réttinda aldraðra. Það verði metið hvort sett verði á laggirnar sérstakt embætti umboðsmanns aldraðra eða hvort sveitarfélög annist verkefnið. Samráð verði haft við hagsmunasamtök aldraðra við vinnuna.“

Á liðnum árum hefur á Alþingi og í almennri þjóðfélagsumræðu verið rætt um þörfina á að stofna sérstakt embætti umboðsmanns aldraðra sem hefði það hlutverk að annast hagsmunagæslu fyrir aldraða og fylgjast með því að stjórnvöld og einkaaðilar tækju fullt tillit til réttinda þeirra og þarfa.

Hér er verið að miða við þann hóp sem er kominn á eftirlaunaaldur. Hópurinn er stór og fjölbreyttur og eðli málsins samkvæmt er hann misjafnlega fær um að gæta réttar síns og hagsmuna sjálfur. Ég vil nefna að frá því að þessi tillaga var lögð fram hefur ýmislegt breyst í samfélaginu og segja má að ekki síður nú en þá sé nauðsyn að koma þessum hópi til aðstoðar við að gæta réttar síns og hagsmuna.

Ábyrgð á þjónustu við aldraða dreifist á hendur ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Lögin um málaflokkinn eru flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Þess vegna er brýnt að aldraðir geti á einum stað nálgast upplýsingar um lögvarin réttindi sín og hvernig þeim verður best fylgt eftir, m.a. í því skyni að styrkja stöðu þeirra með tilliti til fjárhags, heilsu, búsetu og umönnunar. Þetta er hópur sem fer ört stækkandi. Árið 2007, eða í fyrra, voru Íslendingar 67 ára og eldri tæplega 32 þúsund og samkvæmt spá Hagstofunnar verða þeir orðnir um 46 þúsund árið 2020.

Þegar embætti umboðsmanns barna var stofnað með sérstökum lögum var útskýrt hvað almennt fælist í störfum umboðsmanna sérhópa í almennum athugasemdum með frumvarpinu og segir þar, með leyfi forseta:

„Í umræðu um umboðsmenn sérhópa í þjóðfélaginu er yfirleitt átt við óháða embættismenn sem hafa það hlutverk að taka við kvörtunum vegna tiltekinna málefna sem heyra undir verksvið þeirra jafnframt því að vera talsmenn þeirra hópa gagnvart stjórnvöldum, gefa út álitsgerðir, þrýsta á stjórnvöld um úrbætur, hafa frumkvæði að ábendingum til stjórnvalda um það sem betur mætti fara í löggjöf eða á viðkomandi sviðum framkvæmdarvaldsins og almennt að móta viðhorf í þjóðfélaginu og hafa stefnumarkandi áhrif fyrir þá þegna þjóðfélagsins sem þeir eru talsmenn fyrir.“

Flytjendur þessarar þingsályktunartillögu telja eðlilegt að metið verði hvort sett verði á laggirnar sérstakt embætti umboðsmanns aldraðra eða hvort sveitarfélögum verði falið að annast hagsmunagæsluna. Það er erfitt við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu að leggja til aukin útgjöld ríkissjóðs en við bendum einnig á þjónustu sveitarfélaganna. Mig langar þá að nefna nýtt embætti sem hefur verið sett á laggirnar hjá Reykjavíkurborg sem sinnir að hluta til þeim verkefnum sem hér eru lögð til en það er mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar sem nýlega er tekinn til starfa. Má líta á hann sem umboðsmann ýmissa hópa og þar á meðal aldraða. Því er full ástæða til þess að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra skoði þá þjónustu sem þar er í boði. Málefni aldraðra heyra undir félags- og tryggingamálaráðherra og því er rétt að hann kanni kosti þessarar leiðar. Verði niðurstaðan sú að fela sveitarfélögunum verkefnið ætti ráðherrann að hafa samráð við samgönguráðherra um það verkefni en hann er yfirmaður sveitarstjórnarmála. Einnig er mjög mikilvægt að hafa samráð við samtök aldraðra á öllum stigum málsins.

Félag eldri borgara í Reykjavík hefur á undanförnum árum reynt eftir bestu getu að annast hagsmunagæslu fyrir aldraða en nú er svo komið að samtökin eiga erfitt með að sinna því vegna mikils umfangs. Það hefur komið fram í umræðum við Félag eldri borgara að það hefur verið með lögfræðing í starfi við lítil efni og löng bið hefur verið eftir þjónustu þessa lögfræðings sem samtökin hafa verið með á sínum snærum. Hefur hann aldrei getað annað öllum þeim fjölda sem sóst hefur eftir stuðningi. Félagið hefur einnig verið með upplýsingagjöf sem mikið hefur verið sótt í þannig að full þörf er á að koma á þessari þjónustu. Félag eldri borgara í Reykjavík hefur bent á að fordæmi séu fyrir réttindagæslu af hendi opinberra aðila í lögum um málefni fatlaðra sem þeir benda á að mætti hafa til hliðsjónar í þessum efnum.

Það er líka í samræmi við tíðarandann að þjónusta við aldraða sé nærþjónusta og þannig að miklu leyti á hendi sveitarfélaganna enda hefur það verið stefna stjórnvalda að koma þessari þjónustu við aldraða yfir til sveitarfélaganna. Í ljósi þess ættu sveitarfélögin að aðstoða eldri borgara innan sinna umdæma við að gæta réttar síns í málefnum sem þá varða. Þar sem sveitarfélög eru misstór er eðlilegt að smærri sveitarfélög sameinist um þessi verkefni.

Á Norðurlöndunum er ýmis háttur hafður á við að gæta hagsmuna og réttinda aldraðra og leggja flytjendur þessarar tillögu áherslu á að reynslan þaðan verði höfð til hliðsjónar. Dæmi eru um óháð embætti á vegum yfirvalda, borgar- eða sveitarstjórna, sem búa yfir sérþekkingu á málefnum aldraðra. Hlutverk þeirra er að aðstoða eldri borgara við að fá rétta úrlausn mála sinna og má nefna sem dæmi að umboðsmaður aldraðra í Stokkhólmi aðstoðar eldri borgara við það sem snýr að málefnum aldraðra og þjónustu við þá. Þeir geta komið beint til hans með skoðanir á málefnum sínum, kvartanir og spurningar og hann vísar þeim áfram rétta leið í kerfinu. Borgaryfirvöld í Stokkhólmi telja mikilvægt að efla tengslin við aldraða sem njóta þjónustu borgarinnar á þennan hátt. Áhrif eldri borgara á þá þjónustu sem þeir fá eru þannig talin mikilvæg og jafnframt að þeir hafi val um þá þjónustu. Hlutverk umboðsmannsins þar er líka að safna saman athugasemdum og nýta þær til að bæta þjónustu við aldraða. Þetta skoðuðum við þegar við vorum á ferðinni í Stokkhólmi, ég kynnti mér þetta aðeins og spurðist fyrir um þetta þegar við vorum þar að kanna sjúkratryggingastofnun nú í haust.

Flytjendur þingsályktunartillögunnar telja ástæðu til að aldraðir hér á landi eignist málsvara sem sinni réttindamálum þeirra og í sama streng hafa félög eldri borgara tekið, en það sést vel í fylgiskjali sem er grein eftir Margréti Margeirsdóttur, formann Félags eldri borgara í Reykjavík. Hún skrifaði grein í Morgunblaðið 21. apríl 2007 í framhaldi af ályktun sem aðalfundur Félags eldri borgara samþykkti aðeins fyrr á því ári. Það var áskorun til ríkisstjórnarinnar að stofna embætti umboðsmanns aldraðra. Við leggjum sem sagt til að annaðhvort taki sveitarfélögin þetta að sér — Reykjavíkurborg hefur hafið þjónustu með mannréttindastjóranum — eða að ráðherra leggi til umboðsmann eða skoði a.m.k. þessi mál. Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra mundi þá ákveða leið til þess að ná þeim markmiðum sem hér eru lögð til grundvallar.

Virðulegi forseti. Þar sem málefni eldri borgara heyra undir félags- og tryggingamálaráðherra er eðlilegt, í framhaldi af umræðu um þingsályktunartillögu um málsvara fyrir aldraða, að málið fari til 2. umr. og hv. félags- og tryggingamálanefndar til umfjöllunar. Ég vil áður en ég lýk máli mínu ítreka að þetta hefur verið mikið baráttumál Samtaka aldraðra í alllangan tíma og þörfin er mikil eins og fram kemur, bæði í greininni sem fylgir og í fjölda ályktana sem aðalfundir Samtaka eldri borgara hafa sent frá sér á undanförnum árum.