136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

málsvari fyrir aldraða.

18. mál
[15:36]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu og tel að hún sé mjög af því góða. Ekki veitir af að aldraðir eignist formlegan málsvara sem getur gætt hagsmuna þeirra.

Ýmislegt þarf að skoða samhliða þessu. Ríkið rekur sumt sem snýr að málefnum aldraðra og sumt eru sveitarfélögin að gera. Kannski má segja að full ástæða sé til þess við þessar aðstæður, og þetta er kannski eitt af því sem styrkir þá stöðu og þá leið að endurskoða skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga. Það þarf að setja meira fjármagn til sveitarfélaganna ef þau eiga að taka yfir þætti sem snúa að málefnum aldraðra.

Heimaþjónusta er á vegum sveitarfélaga, hjúkrunarheimili á vegum ríkisins og svo öldrunarheimili, elliheimili, sum hver einkarekin — það eru margir þættir sem þarf að skoða í þessu. Við sjáum t.d. einkarekin elliheimili eins og Hrafnistu, Grund og Ás í Hveragerði — og ástand hjóna er oft með þeim hætti að annað þarf að njóta þjónustu frá ríkinu og hitt frá sveitarfélaginu. Þó að ég sé kannski kominn út fyrir tilganginn með tillögunni þá er þetta hluti af því sem þarf að huga að þegar verið er að hugsa um málefni aldraðra. Í framtíðinni þurfum við að sjá þetta á einni hendi, rekið af sveitarfélagi en ekki ríki. Þetta er nærþjónusta og sveitarfélögin þekkja betur til aðstæðna hjá fólki en ríkið. Málsvari eða umboðsmaður aldraðra, eða hvað sem embættið verður látið heita, verður mjög af því góða og getur m.a. komið í veg fyrir að átök séu á milli ríkis og sveitarfélaga í þessum málaflokki.

Mér líst vel á þetta og finnst þetta vera skref í rétta átt. Ég mun styðja þessa þingsályktunartillögu.