136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

Háskóli á Ísafirði.

46. mál
[16:26]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi lýsa því yfir að það mál sem hér er til umræðu nýtur fulls stuðnings þess sem hér stendur og annarra þingmanna Frjálslynda flokksins.

Það er til mikils að vinna að ná því í gegn sem hér er lagt til, að stofna sjálfstæðan háskóla á Ísafirði. Til þess hefur áhugi manna staðið eins og kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan þegar hann vísaði til þess réttilega að bæjarstjórnir á Vestfjörðum hafa lagt þessu máli lið og Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur einnig sérstaklega mælt með því að stofnaður verði sérstakur háskóli á Vestfjörðum.

Háskólasetur Vestfjarða, sem nú er staðsett á Ísafirði, hefur vissulega hafið starfsemi og sú starfsemi gengur ágætlega og er góður vísir að því sem koma skal en ég tek sérstaklega undir það í þessu frumvarpi að stíga eigi skrefið til fulls og stofna sérstakan háskóla á Vestfjörðum. Því fylgir auðvitað mikill ávinningur eins og kom fram í máli hv. 1. flutningsmanns og framsögumanns þessa máls og reynslan af háskólum annars staðar á landinu bendir eindregið til þess að eftir miklu sé að slægjast í því máli sem hér er lagt upp með. Ef horft er til háskóla í landinu og þróun þeirra og þeirrar byggðar þar sem þeir eru staðsettir er reynslan sú að þeir efla mjög byggð og að sjálfsögðu er mest um verð sú menntun sem þeir hljóta sem stunda þar háskólanám. Það er því eftir miklu að slægjast að hafa háskóla í viðkomandi byggðarlögum, það styrkir byggðirnar og gerir það mögulegt að stunda háskólanám heima í héraði. Það mælir allt með því að staðið verði þannig að verki sem hér er lagt til, að stofnaður verði og sett lög um sérstakan háskóla á Vestfjörðum. Er þá ekki verið að gera lítið úr því, hæstv. forseti, sem gert hefur verið hingað til í þeim málum vestur á fjörðum, á Ísafirði, og ber auðvitað að fagna því sem vel hefur tekist til með. Það breytir ekki þeim einlæga vilja mínum og að sjálfsögðu flutningsmanna að háskóli verði starfræktur á Ísafirði og þar starfi sjálfstæður háskóli.

Það er líka rétt að benda á, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að atvinnulíf á Vestfjörðum hefur löngum verið talsvert einhæft. Það hefur byggst mikið á sjávarútvegi og staðið styrkum stoðum sem slíkt á honum en með niðurskurði aflaheimilda á síðasta ári var vegið verulega að þeirri undirstöðu sem vestfirskar byggðir byggja á en þar skiptir auðvitað botnfiskaflinn og þá einkum þorskaflinn langmestu máli. Þegar við sitjum uppi með það annað árið í röð að þorskaflinn eigi að vera 130 þúsund tonn er náttúrlega vegið sérstaklega að undirstöðum þessarar byggðar og það er ekki tilviljun, hæstv. forseti, að fækkað hefur í byggðum Vestfjarða á undanförnum árum og áratugum. Ég vil einnig minna á að tillögur svokallaðrar Vestfjarðanefndar eru í þá veru að reyna að styrkja atvinnulíf og ýta undir menntun á Vestfjörðum og ég tel að það frumvarp sem hér er lagt fram sé því virkilega orð í tíma töluð og að við eigum að afgreiða þetta mál sem lög frá Alþingi. Ég hvet eindregið til þess að það verði gert. Það mun að mínu viti hafa mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun á Vestfjörðum og einnig þá tilfinningu fólks að geta sótt menntun í sínu heimahéraði og að þar verði til störf sem tengjast háskólamenntun og háskólastarfi, rannsóknum og vísindum.

Þess vegna er ég eindreginn stuðningsmaður þess, hæstv. forseti, að málið fái góða afgreiðslu í hv. Alþingi. Aldrei er meiri þörf en einmitt nú að slíkt mál eins og hér um ræðir fái afgreiðslu og stefnumótun til framtíðar og er mikill vísir að því að stjórnvöld ætli sér að standa gegn þeirri byggðaþróun sem verið hefur á Vestfjörðum og að gera þeim landshluta mögulegt að ná fótfestu til jafnfætis við aðrar byggðir. Við sjáum þróunina sem orðið hefur samfara aukinni háskólamenntun í Borgarfirði, við sjáum þróunina á Akureyri og í Skagafirði þar sem Hólaskóli hefur eflst og er Skagfirðingum afar mikilvægur á því svæði öllu. Það er því ekki spurning að hér er um ákaflega þarft og gott málefni að ræða sem vissulega er búið að stíga skref í en nú tel ég, hæstv. forseti, að stíga eigi það til fulls á yfirstandandi þingi og samþykkja frumvarpið sem lög frá hv. Alþingi.