136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga –– stýrivaxtahækkun.

[13:42]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að fagna og þakka framgöngu Færeyinga í okkar garð. Færeyringar hafa alla tíð stutt okkur með ráðum og dáð og það er alveg klárt mál að á vettvangi alþjóðasamfélagsins voru Færeyingar okkur bestu og kannski einu sönnu vinir. Vinátta þeirra hefur aldrei verið háð skuldbindingum. Það þurfum við að meta, það þurfum við að rækta. Þess vegna þurfum við að gæta þess að styrkja Færeyinga í einu og öllu sem við getum, eins og hér hefur komið fram, virðulegi forseti.

Það er vonandi að það fari að minnka froðulöðrið í umræðunni sem verið hefur síðustu daga um alvöru málsins. Vonandi beina menn sjónum að því sem skiptir miklu máli nú, þ.e. að því að létta róðurinn hjá þeim sem verst fara út úr ágjöfinni, hjá fjölskyldum og fyrirtækjum, að finna þar flöt sem getur brúað bil. Það eru hlutir sem þarf að ræða og skoða í fullri alvöru án þess að góna á „glimmer“ Evrópubandalagsins sem er hvorki í nálægð né í framtíðinni svo að mark sé á takandi miðað við þann tíma sem allt slíkt tekur. Þess vegna er rétt að menn spóli sig aðeins niður. Það væri kannski ekki svo vitlaust að kanna það að taka upp færeyska krónu í samfloti með Færeyingum á jafnréttisgrundvelli. En öll mál þarf að skoða.