136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga –– stýrivaxtahækkun.

[13:44]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í kjölfar þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kallaði eftir því hvort ríkisstjórnin hefði meirihlutastuðning á Alþingi við þær aðgerðir sem hún hefði gripið til, þ.e. vegna stýrivaxtahækkunar sem Seðlabankinn tók ákvörðun um. Það má ekki gleyma því að Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun og tekur sína ákvörðun.

Það samkomulag eða áætlun sem íslensk stjórnvöld hafa sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á eftir að taka fyrir í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hefur hún ekki enn tekið afstöðu til þeirrar áætlunar. Afstaða stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins liggur því ekki á þessu stigi fyrir nema að komið hafa vilyrði úr þeirri átt. Seðlabankinn tók þá ákvörðun í gær að hækka stýrivexti úr 12% í 18% og hækkaði þar um 6 prósentustig. Væntanlega gerir Seðlabankinn það til að reyna að standa vörð um krónuna og til að reyna að fá verð á hana. Staðreyndin er vitaskuld sú að um það bil 80% af skuldum fyrirtækja eru í erlendri mynt og það er mikill hagur fyrir fyrirtækin að fá verð á krónuna þannig að hægt sé að meta þær skuldir af einhverju viti. Ég get ímyndað mér að 20% heimila séu með erlendar skuldir og það er því mikill hagur fyrir heimilin og innflutninginn að fá verð á krónuna. Varðmenn krónunnar, þeir sem telja að krónan sé framtíðarmynt íslensku þjóðarinnar, hljóta að dásama þessa aðgerð. (Forseti hringir.) Fyrir hina sem telja skynsamlegra að leita annarra leiða, (Forseti hringir.) til að mynda að ganga til liðs við Evrópusambandið, horfa menn á þetta sem tímabundna aðgerð (Forseti hringir.) til að krónan fái verðgildi.