136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga – stýrivaxtahækkun.

[13:47]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég kem hér til þess að ræða aðeins mál málanna, stýrivaxtahækkunina. Ég get þó ekki látið hjá líða að taka undir þær þakkir sem fluttar hafa verið Færeyingum. Ég tel líka ástæðu til að Alþingi hafi hugfast að þrátt fyrir nokkurn fjandskap sem Bretar, og jafnvel fleiri þjóðir, hafa sýnt okkur, sérstaklega þó Bretland, eigum við þar líka marga vini. Í stjórnmálum Bretlands hafa margir — kannski ekki kratarnir — tekið svari okkar.

Varðandi þá umræðu sem verið hefur í samfélaginu er ég ekki einn um það — ég hygg að svo sé með þjóðina alla að hún sé nokkuð ráðvillt í því hver fari með völd. Framan af þessu kjörtímabili báru ráðherrar Samfylkingarinnar því fyrir sig að þeir hefðu engin völd, allt hefði verið ákveðið af fyrri ríkisstjórn. Nú er viðbáran sú að þeir hafi engin völd, þetta sé allt ákveðið uppi í Seðlabanka. Málflutningur af þessu tagi nær ekki máli að mínu viti.

Ástæða er til þess að það sé á hreinu hver afstaða Samfylkingarinnar er til stýrivaxtahækkunarinnar — þetta er pólitísk ákvörðun, ákvörðun sem tekin er í samskiptum Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fylgt eftir af embættismönnum sem starfa á vegum og í umboði framkvæmdarvaldsins og lúta þar með vissum hætti pólitísku valdi. Enda hefur ekki heyrst nein breyting á því að valdskiptingin sé þrískipt, framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Það hefur ekki verið gefið út að það fyrirkomulag sé með neitt öðrum hætti. Það að fulltrúar Samfylkingarinnar skjóti sér bak við hið svokallaða sjálfstæði Seðlabankans þykir mér ekki mjög stórmannlegt.

Við áttum fund um þetta í fjárlaganefnd í morgun og ég kalla eftir svörum fjárlaganefndarmanns frá Samfylkingunni, hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, um það hver afstaða hennar er (Forseti hringir.) til þeirrar stýrivaxtahækkunar sem nú (Forseti hringir.) hefur verið ákveðin og ég tel að sé ekki að öllu leyti farsæl fyrir þjóðina.