136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga – stýrivaxtahækkun.

[13:56]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hafa fært Færeyingum þakkir fyrir þann stórhug og vinarþel sem þeir hafa sýnt í garð okkar Íslendinga. Ég vil sérstaklega þakka Árna Þór Sigurðssyni fyrir að vekja máls á því atriði. Mér finnst full ástæða til þess að við Íslendingar sendum Færeyingum hlýjar kveðjur og þökkum fyrir — þegar við þurfum á að halda er ljóst að við eigum þar mjög góða vini.

Varðandi stýrivextina liggur það fyrir að hingað til hefur verið miðað við það í hagstjórninni að stýrivextir séu notaðir til að koma í veg fyrir verðbólgu. Seðlabankinn hefur miðað við að hækka stýrivexti til að draga úr þenslu í þjóðfélaginu, það er það sem Seðlabankinn hefur haft fram að færa hvað það varðar. Seðlabankinn hefur farið fram með þeim hætti á undanförnum árum, með mjög óábyrgum stýrivaxtahækkunum, að hann gerði íslenska gjaldmiðilinn að ákveðnum lottógjaldmiðli sem varð til þess að færa upp gengi gjaldmiðilsins án nokkurra eðlilegra viðmiðana. Nú þegar beita á þessari aðferð við þessar aðstæður er það rangt.

Ég vil vekja athygli á því að í gær talaði hæstv. iðnaðarráðherra með þeim hætti að það varð ekki skilið öðruvísi en svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði ekki sett þau skilyrði að stýrivextir yrðu hækkaðir eins og hér er um að ræða. Því verður að líta svo á að þetta sé fyrst og fremst mál Seðlabanka Íslands og ekki annarra meðan annað er ekki upplýst. Þetta er mjög óráðlegt. Það skiptir mestu máli í dag að koma hjólum atvinnulífsins í gang, gera fyrirtækjunum og heimilunum mögulegt að starfa. Það gerum við ekki með því að hækka vexti. (Forseti hringir.) Við gerum það með því að lækka vexti og skapa skilyrði vaxtar og eðlileg lánakjör í landinu.