136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga – stýrivaxtahækkun.

[13:58]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn taka undir þær þakkir sem hafa verið færðar til frænda okkar Færeyinga. Ég vil þakka Árna Þór Sigurðssyni fyrir að taka það mál upp hér og ræða. Það er afar mikilvægt að finna stuðning hjá frændþjóð við þessar aðstæður og staðreyndin er sú að í hvert skipti sem á móti hefur blásið hjá okkur, og má þá nefna Vestmannaeyjagosið, snjóflóð o.fl., hafa Færeyingar staðið upp og reynt að styðja okkur sem mest þeir mega og fyrir það eiga þeir þakkir skildar.

Það þarf ekki að koma á óvart að þingmenn séu örlítið hugsi eða undrandi yfir því hvernig Seðlabankinn hefur komið þessum stýrivaxtahækkunum á framfæri. Seðlabankinn tekur þessa ákvörðun, um að hækka stýrivexti um 6 prósentustig, dálítið óvænt en gerir það síðan þannig að það sé vegna samkomulags ríkisstjórnarinnar við IMF, sem reyndar er ekki komið á. Ef Seðlabankinn hefur gert það vegna þess er hann í reynd að lýsa því yfir að hann sé hættur að styðjast við sjálfstæða peningastefnu, þ.e. þá er hann ekki lengur sjálfstæður, yfirlýsing hans felst í því. Ef hann er hættur að taka sjálfstæðar ákvarðanir á eigin forsendum en gerir það á einhverjum öðrum forsendum þá er hann í reynd að lýsa því yfir að hann sé ekki lengur sjálfstæður, en á sama fundi lýsti Seðlabankinn því yfir að hann væri sjálfstæður. Það þarf því ekki að koma á óvart að ýmsir þingmenn séu hugsi yfir þessari stöðu.

Staðreyndin er hins vegar sú að í augnablikinu eigum við fáa aðra kosti en að styðjast við krónuna. Í því eru tveir kostir, að setja hana á flot eða festa gengið. Báðir kostirnir eru erfiðir. Í þeirri áætlun sem lögð hefur verið fram hefur verið lagt upp með að setja krónuna á flot og forsenda þess að það geti gengið (Forseti hringir.) er sú að krónan fái verð. Þetta er liður í því og þetta er líka liður í því að ná verðbólgunni niður og að (Forseti hringir.) lækka skuldir fyrirtækja og heimila í landinu, þó að stýrivaxtahækkunin sé að sjálfsögðu erfið fyrir fólk og fyrirtæki sem þurfa að styðjast við krónuna.