136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

ummæli þingmanns.

[14:03]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil bara vísa því til forseta þegar hv. þingmenn beita því orðalagi að menn séu ómerkingar og að þá sé að minnsta kosti sett ofan í við þá þegar þeir nota ræðustólinn á þann hátt sem hér er gert.

Hv. þingmaður sem fyrir nokkrum dögum studdi þá ákvörðun og flokkur hans hefur lýst þeirri skoðun sinni að skynsamlegt sé að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur hingað upp í kjölfar þess að ákvörðun er tekin og lýsir því yfir án þess að blikna að menn séu ómerkingar orða sinna og án þess að færa fyrir því nokkur rök. Ég tel, virðulegi forseti, að nægur orðaflaumur eigi sér nú stundum stað hér þó að menn beiti ekki svona orðfæri við þær aðstæður sem nú eru uppi. Ég held að hv. þingmaður verði að gæta orða sinna og ég held að það sé mikilvægt að forseti líti til með honum þegar hann er hér í ræðustól.