136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Vestfjarðaveg.

75. mál
[14:09]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur á þingskjali 75 vil ég segja þetta: Í dómi héraðsdóms um téðan áfanga Vestfjarðavegar var niðurstaðan sú að umhverfisráðherra hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem í matsferlinu hafi ekki farið fram mat á líklegum umhverfisáhrifum þverunar Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Hins vegar hafnar dómurinn öllum öðrum málsástæðum stefnanda þar á meðal að umhverfisáhrif framkvæmda á gróðursamfélag hafi ekki verið upplýst þegar ráðherra féllst á leið B.

Andstaða við þessa mikilvægu samgöngubót fyrir sunnanverða Vestfirði hefur einkum mótast af áhyggjum um áhrif vegarins á Teigsskóg í Þorskafirði en niðurstaða dómsins tekur af öll tvímæli um að ráðherra hafi haft nægilegt svigrúm til að kveða á um mótvægisaðgerðir og séu í úrskurði hans sett fram slík skilyrði.

Fram hefur komið að jarðgangavalkostur með göngum undir Hjallaháls og göngum undir Gufudalsháls er um 3 milljörðum kr. dýrari en leið B. Það er mikill munur á að hægt sé að taka jarðgöng sem raunhæfan valkost. Vegagerðin hefur haft til umfjöllunar dóm héraðsdóms og forsendur hans og hefur ákveðið að áfrýja honum til Hæstaréttar.