136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Vestfjarðaveg.

75. mál
[14:13]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þá ákvörðun að þessu máli skuli vera áfrýjað til Hæstaréttar. Ég tel að í þessu máli og við staðsetningu vegarins um Teigsskóg hafi verið leitað allra þeirra eðlilegu leiða sem hægt var að leita og vegarstæðið fært m.a. til að valda sem minnstum spjöllum. Ég tel að það sé svo mikil og róttæk aðgerð að stöðva þessar framkvæmdir að ekki sé við það unað, bara alls ekki við það unað, hæstv. forseti. Búið er að tefja þessar framkvæmdir árum saman með þessu þrasi fram og til baka og það er bara ekki búandi við slíkt vinnulag. Ég sé ekki annað, ef þetta á að ganga svona fram, en að þá neyðist menn til að fara að endurskoða það ferli sem verið hefur um framkvæmdir almennt.