136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Vestfjarðaveg.

75. mál
[14:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu ekkert athugavert við það að látið sé reyna á mál af þeim toga sem hér er til umfjöllunar fyrir öllum dómstólum, þar á meðal Hæstarétti. Ég vek þó athygli á því að það mun að sjálfsögðu lengja eitthvað í málinu frá því sem verið hefur og kemur þá dálítið spánskt fyrir sjónir að þeir þingmenn sem fagna því sérstaklega að þetta mál fari til Hæstaréttar kvarti einmitt yfir því að málið hafi dregist úr hömlu og ekki sé við það unandi. (Gripið fram í.) Ég verð að segja alveg eins og er burt séð frá efnisatriðum þessa máls að mér finnst alvarlegt þegar þingmenn koma hér upp og gera athugasemdir við að lögformleg ferli séu nýtt af þeim aðilum sem vilja sækja rétt sinn og mega það samkvæmt íslenskri stjórnskipun. Það hljótum við að vilja hafa í heiðri, virðulegi forseti. (KHG: Taka sér fimm og hálft ár í þras.) Þingmaðurinn getur kallað það þras ef honum sýnist svo en það er lýðræðislegur réttur í okkar samfélagi (KHG: Þetta er afskræming á lýðræðinu.) og ef menn vilja snúa af þeirri braut væri fróðlegt að fá að heyra þingmenn segja það.