136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Vestfjarðaveg.

75. mál
[14:18]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég segja vegna þess að það kemur ekki einu sinni heldur tvisvar fram hjá hv. fyrirspyrjanda að gangaleið hafi ekki verið skoðuð með tilliti til kostnaðar. Vegagerðin hefur öll þau gögn sem þarf til að meta kostnað við þessi jarðgöng. Hv. þingmaður vitnar í einn málsaðila sem hefur lagt fram gögn máli sínu til stuðnings um kostnaðarmun milli leiðar B og gangaleiðarinnar. Þar er ekki verið að bera saman alveg nákvæmlega sömu hlutina. Vegagerðin telur að miðað við að vera Þorskafjarðarmegin í 60 metra hæð yfir sjávarmáli þurfi að gera jarðgöng sem eru 3,8 km löng. Viðkomandi aðili setur fram göng sem eru 2,8 km, styttir leiðina um jarðgöngin um einn kílómetra og fer upp í 110 m yfir sjávarmál og sama má segja um Gufudalsveit. Það er því ekki verið að bera saman sömu kosti. Við setjum ekki peninga í dag í það að búa til fullkomin almennileg jarðgöng með því að fara lengst upp í fjöll með þau. Þess vegna er ekki hægt að bera þetta saman. Það er 3 milljarða kostnaðarmunur á gangaleiðinni og leið B. Það er óumdeilanlegt. Vegagerðin hefur öll gögn til að vega og meta kostnað við þetta og þarf ekki að fara í umhverfismat til þess. Þetta er bara tekið úr kostnaðar- og gagnabanka.

Ég fagna því hins vegar að þeir þingmenn sem hér hafa talað fagni því að málinu skuli áfrýjað til Hæstaréttar. Ég taldi það strax nauðsynlegt að láta það koma fram. Ég fagna þó alveg sérstaklega yfirlýsingu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um að það sé ekkert athugavert við áfrýjunina. Sei, sei. Gott og vel. Og hv. fyrirspyrjandi (ÁI: Kom þér það á óvart?) tók undir það (ÁI: Ertu hissa?) að þetta væri gert og þess vegna er það bara ágætismál að við erum svona sammála um að láta málið fara til Hæstaréttar og klára það fyrir dómstólum vegna þess að málflutningi er ekki lokið eins og hv. þingmaður talaði um. Hæstiréttur er eftir og hann hefur endanlegt úrskurðarvald og sjáum hvað gerist þar.