136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Gjábakkaveg.

76. mál
[14:25]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrstu spurningu hv. fyrirspyrjanda á þskj. 76 vil ég segja þetta: Verkið var boðið út í apríl sl. og tilboð opnuð 20. maí sl. Skrifað var undir verksamning við lægstbjóðanda, Klæðningu ehf., þann 4. júlí sl. og hófust framkvæmdir í byrjun ágúst. Verkinu á að vera lokið fyrir 15. október 2010 samkvæmt verksamningi.

Í öðru lagi er spurt: „Hvað verður um núverandi Gjábakkaveg þegar nýr vegur hefur verið lagður?“ Núverandi vegur verður að mestu notaður sem göngu- og reiðleið samkvæmt aðalskipulagi Laugardalshrepps frá 2000–2012 og samþykkt við aðalskipulag Þingvallasveitar 2004–2016. En einnig eru uppi hugmyndir um að á um 2 kílómetra kafla á milli tenginga við vegslóða til suðurs vestan Litla-Reyðarbarms sem mun tengjast nýjum Lyngdalsheiðarvegi og vegslóða til norðurs um Bragarbót sem liggur inn af hálendinu verði vegurinn að einhverju leyti notaður af annarri umferð vegna útivistar á svæðinu. Á þessum vegarkafla eru upphaflegur Kóngsvegur og núverandi akvegur að mestu aðskildir og þannig gæti Kóngsvegurinn nýst hestamönnum svo dæmi sé tekið.

Svar við þriðju spurningunni er einfaldlega nei.

Í fjórða lagi er spurt: „Telur ráðherra að sú ákvörðun að ganga frá verksamningum og hefja framkvæmdir við vegarlagninguna skapi ríkinu skaðabótaskyldu falli dómur kærendum í vil? Því er til að svara að matsnefnd eignarnámsbóta fjallar nú um bætur til landeigenda fyrir það land sem fer undir Lyngdalsheiðarveg. Ekki er gert ráð fyrir að til frekari bóta muni koma.