136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Gjábakkaveg.

76. mál
[14:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Svar hans við þriðju spurningunni undrar mig þó, þ.e. hvort ráðherra hafi brugðist við ósk þess efnis að framkvæmdum verði frestað þar til niðurstaða fæst í málið sem höfðað var gegn Vegagerðinni vegna framkvæmdanna og ef svo er þá hvernig. Svarið var nei. Hann hefur ekki brugðist við því.

Ég spyr: Barst ráðherra ekki erindi þess efnis eða kaus hann að bregðast ekki við því? Er það rangt sem haldið hefur verið fram að ráðherra hafi borist erindi 30. maí síðastliðinn sem hann hafi svarað 5. ágúst síðastliðinn og þá vísað til þess að ekkert væri hægt að gera vegna þess að búið hafi verið að semja við verktaka? Það var ekki gert fyrr en fimm vikum eftir að erindið barst. Ef rétt er með farið er það ótrúleg stjórnsýsla sem vart fær staðist skoðun. Hitt er þó sýnu verra, ef þetta er rétt, að ráðherra skuli koma hér upp og neita því. Ég óska eftir að fá frekari skýringar á því.

Ég nefndi áðan að það er að verða plagsiður að almenningur þarf að fara að leita til dómstóla til þess að verja náttúru Íslands. Mér þykir miður að hlusta á þann valdhroka og mannfyrirlitningu sem komið hefur fram hjá mönnum í umræðum um þessar tvær fyrirspurnir. Þá á ég við hversu menn tala af mikilli lítilsvirðingu um þá sem sækja rétt sinn og rétt náttúrunnar sem eðlilegt er og rétt og skylt samkvæmt íslenskum lögum.

Ég hef haft góða stöðu til þess sem náttúrufræðingur og ritstjóri Náttúrufræðingsins í tíu ár að fylgjast með þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á Þingvallavatni. Allir þeir sem haft hafa færi á því vita að rannsóknir dr. Péturs M. Jónassonar eru þess eðlis að þær bera höfuð og herðar yfir annað sem unnið hefur verið á sviði (Forseti hringir.) vatnarannsókna á Íslandi. Það mjög miður að menn skuli tala um að þar sé einhver einn aðili sem sé ekki ástæða til þess að hlaupa eftir. Ég (Forseti hringir.) minni á að menntamálaráðherra, dómsmálaráðherra, umhverfisráðherra og Þingvallanefnd hafa lýst óánægju með þessa niðurstöðu. Það er samgönguráðherra sem ræður þessu og við heyrðum í (Forseti hringir.) honum hér áðan.