136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Gjábakkaveg.

76. mál
[14:32]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ef til vill er fyrirspyrjandi enn þá að ræða um hvað sé það síðasta sem sett var fram um málið en það er annar handleggur. Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta þar sem ég hef svarað fyrirspurninni. Kæran frá landeiganda sem hefur neitað að láta land undir veg, eins og hann kallar það sjálfur, er lögð fram vegna deilu eins landeiganda út af ákveðinni framkvæmd líkt og þeirra tveggja landeigenda í Teigsskógi sem við ræddum um áðan. Það gerist stundum að landeigendur vilja ekki láta land undir veg og þá hafa þeir sinn rétt og geta varið þann rétt. Hér er ekki um neinn valdhroka að ræða. Málið er búið að fara alla leið í gegnum kerfið í umhverfismat, svo að það komi nú fram.

Ég hef lesið öll þau gögn sem borist hafa út af þessum vegi og frá Pétri M. Jónassyni. Ég tek líka eftir því að mest er talað um nítrítmengun í vatninu. Mér kemur á óvart að sami aðili beitti sér fyrir því að Þingvellir kæmust á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Þá má alveg leiða líkur að því að við það að setja Þingvelli inn á heimsminjaskrá aukist mjög umferð um svæðið og þar með mengun. Það má líka spyrja sig að því hvort mengunin sem berst í Þingvallavatn frá sumarbústöðum, m.a. í þessu landi, sé ekki töluvert mikil. Það er því alltaf spurning um hvað á að taka til.

Ég ítreka þau svör sem ég gaf áðan og segi að málið er í vinnslu eins og kom fram. Framkvæmdir hófust á þessum tíma og verklok hafa verið áætluð.