136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

fæðingarorlof kvenna sem gengist hafa undir tæknifrjóvgun.

81. mál
[14:38]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég get svarað spurningu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur þannig að í mínum huga kemur það vel til greina að endurskoða lög um fæðingar- og foreldraorlof þar sem sérstakt tillit verður tekið til aðstæðna einhleypra kvenna sem eignast börn eftir að hafa gengist undir tæknifrjóvgun.

Ég undirstrika að aðstæður þessara kvenna eru sérstakar og tel ég þess vegna ástæðu til þess að það verði skoðað hvernig komið verður til móts við aðstæður þeirra. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að unnt hefði verið að breyta þessu þegar í vor þegar frumvarpið um breytingar á lögunum um fæðingar- og foreldraorlof var til umfjöllunar hér í þinginu. Því miður vannst ekki tími til þess þar sem umræðu um það frumvarp var að mestu lokið þegar frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra var lagt fram sem heimilaði einhleypum konum að gangast undir tæknifrjóvgun.

Það breytir því ekki að ég er enn þeirrar skoðunar að mikilvægt er að haldið verði áfram með þá meginreglu laganna að sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarorlofs sé ekki framseljanlegur á milli þeirra nema í skýrt afmörkuðum undantekningartilvikum. Ástæðan er einfaldlega sú að það er sterkt tilhneiging til þess að móðirin taki orlofið í heild sinni hafi foreldrið um það val hvernig þeir skipta því sín á milli og eru til glögg dæmi um það frá öðrum löndum. Í því sambandi er nægilegt að líta til reynslu grannríkja okkar sem og þeirrar staðreyndar að flestar mæður nýta sér sameiginlegan rétt til fæðingarorlofs samkvæmt lögum okkar.

Við þurfum því enn að höfða til jafnréttissjónarmiðanna sem lágu að baki þegar lögin voru sett árið 2000 þar sem áherslan var lögð á jafna foreldraábyrgð og þátttöku kvenna og karla á vinnumarkaði. Ég held að einmitt á svo mikilvægum umbrotatímum sem við göngum í gegnum núna að hvert og eitt foreldri, og þá ekki síður karlarnir, sjái hversu mikilvægt það er að eiga gott samband við börnin sín til þess að geta hlúð að þeim sem best svo að unnt sé að veita þeim þroskavænleg skilyrði áfram.

Virðulegi forseti. Það er einmitt þess vegna sem ég tel svo mikilvægt að við tryggjum enn jafnan rétt kvenna og karla til fæðingarorlofs með þeim hætti sem við höfum gert enda þótt eðlilegt sé að taka tillit til svo sérstakra aðstæðna sem hér eru til umræðu og hv. fyrirspyrjandi spyr um. Það er eðlilegt að við slíkar umræður vakni sú spurning sem við ræddum í fyrra: Hvað með einstæða foreldra, einstæðar mæður sem hafa nú sex mánaða fæðingarorlof? Oft hefur verið kallað eftir því að þær hefðu níu mánaða fæðingarorlof. Við fórum í gegnum í það í fyrra og er ástæða þá til að rifja það upp að til að koma til móts við foreldra sem ekki búa saman og rétt barnanna var lagt til að veita forsjárlausum foreldrum rétt til fæðingarorlofs þegar samþykki þess foreldris sem fer með forsjána liggur fyrir.

Samþykki þess sem fer með forsjána þarf að liggja fyrir og þess vegna er ákaflega erfitt að veita einstæðum foreldrum níu mánaða fæðingarorlof. Einstætt foreldri hefur þá í hendi sér að neita hinu foreldrinu um fæðingarorlofsréttinn í þrjá mánuði og nýta sér réttinn sjálft í níu mánuði. Við erum þar fyrst og fremst að hugsa um rétt beggja foreldra en um það var að vísu ekki spurt. Ég vil þó halda til haga því mikilvæga atriði sem við fórum í gegnum á síðasta þingi.