136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

fæðingarorlof kvenna sem gengist hafa undir tæknifrjóvgun.

81. mál
[14:41]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að lýsa yfir ánægju minni með svör hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur varðandi það mál sem hér er til umræðu. Hér er um ákveðið réttlætismál að ræða og eins og hæstv. ráðherra kom inn á telur hún það hið besta mál og ætlar að beita sér fyrir því.

Það eru hins vegar, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, ýmis ljón í veginum fyrir því ef menn ætla að halda lengra og yfirfæra það á einstæðar mæður almennt. Við verðum að hafa það í huga að markmið laga um foreldra- og fæðingarorlof, þegar þau voru sett, var ekki síst að tryggja samvistir feðra við börnin sín og í raun „skilyrða“ þannig feður í þrjá mánuði til þess að vera með börnum sínum. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er tilhneiging til þess, eins og við þekkjum frá öðrum löndum, að móðirin (Forseti hringir.) nýti réttinn að fullu en markmið laganna var jú að tryggja báðum foreldrum sama rétt.