136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

fæðingarorlof kvenna sem gengist hafa undir tæknifrjóvgun.

81. mál
[14:43]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér fer fram mjög mikilvæg umræða og ég þakka bæði fyrirspyrjanda fyrir að taka málið upp og ráðherra fyrir svörin. Það var mikill áfangi sem náðist þegar samþykkt var að breyta lögum þannig að réttur einhleypra kvenna til tæknifrjóvgunar var tryggður. Í framhaldinu ætti auðvitað að huga að breytingum á lögum um foreldraorlof. Þau lög eru líka til að tryggja þann rétt sem börn eiga samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að tryggja rétt barna til samvista við báða foreldra sína.

Það er auðvitað ýmislegt sem þarf að skoða. Lög eins og þau sem við ræðum hér þurfa sífellt að vera í endurskoðun. Ég heyri það á hæstv. ráðherra að hún er viljug til að skoða þessi mál og auðvitað þurfum við að skoða þau sérstaklega í ljósi þess að þarna er svo sannarlega um eitt foreldri að ræða.